Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Dagsverk fyrir Malaví
Fimmtudagur 9. nóvember 2006 kl. 15:04

Dagsverk fyrir Malaví

Fyrir hádegi föstudaginn 24. nóvember munu nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja eiga kost á því að taka sér frí frá námi og vinna þess í stað launavinnu og leggja afraksturinn til þróunarhjálpar.  Þeir sem fara að vinna utan skólans þennan morgun munu dreifa kynningarefni um starfsemi Íslendinga í Malaví og láta  laun sín renna óskert til þróunarverkefnis í Malaví undir kjörorðinu: „Tökum framhaldsskóla í fóstur”.


Skólinn mun síðan tvöfalda þá upphæð sem nemendur safna í verkefnið.  Verkefninu er hrundið af stað í tilefni 30 ára afmælis Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

  Malaví er í suðausturhluta Afríku og er með fátækustu löndum í heimi. Þar búa um 12 milljónir en Malaví er land á stærð við Ísland. Í Malaví er landsframleiðsla á mann aðeins sem samsvarar 12.000 íslenskum krónum á ári. Í Malaví eru lífslíkur um 40 ár en nýjasta heilsufarsógnin er alnæmi. Ólæsi er útbreitt, tveir þriðju hlutar kvenna og helmingur karla er ólæs. Ísland hefur veitt þróunaraðstoð til Malaví svo árum skiptir og hefur Þróunarsamvinnustofnun annast framkvæmd þess.

 Nemendur geta sjálfir leitað til fyrirtækja um vinnu, en boðið verður upp á vinnumiðlun fyrir þá sem ekki finna sér fyrirtæki sjálfir.  Við munum biðja fyrirtæki á Suðurnesjum að leggja okkur lið og bjóða upp á störf í vinnumiðlunina. Nemendur þurfa að vinna a.m.k. þrjár klukkustundir og lágmarkslaun eru 1.000 krónur á tímann en fyrirtækjum er frjálst að borga meira. 

 Suðurnesjamenn - tökum til hendinni og sýnum hvað í okkur býr með því að taka þátt í þessu verkefni með nemendum.  Með fyrirfram þakklæti,  Undirbúningsnefnd Vinnumiðlunar 

Upplýsingar má fá á skrifstofu skólans í síma 421-3100 og hjá undirbúningsnefnd: 

Sunna Gunnarsdóttir í s. 864-3609  og Hildur Bæringsdóttir í s. 694-66367
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024