Daggæsla í þjónustusvæði tjaldsvæðis
- rakaskemmdir í húsnæði daggæslunnar
Loka þarf daggæslu við Hraunbraut í Grindavík en í fundargerð Grindavíkurbæjar kemur fram að hætta þurfi starfsemi í aðstöðu Krílakots við Hraunbraut 3a. Rakaskemdir séu í húsnæði Krílakots við Hraunbraut 3a og húsnæðið því ekki hæft fyrir starfsemi vegna raka.
Bæjarráð samþykkti að flytja starfsemina tímabundið í þjónustuhúsnæði tjaldsvæðis Grindavíkur og samþykkti fyrirliggjandi leigusamning við rekstaraðila Krílakots.
Í fundargerð umhverfis- og ferðamálanefndar frá 9. nóvember sl. kemur fram að nefndin skilji þá aðkallandi stöðu sem komin sé upp og geri ekki athugasemd við að Krílakot færist tímabundið inn í þjónustuhús tjaldsvæðisins. Nefndin gerir aftur á móti athugasemd við samráðsleysi bæjarráðs við nefndina og þá starfsmenn bæjarins sem hafa með málefni tjaldsvæðisins að gera. Stefnt sé að opnun tjaldsvæðisins þann 1. mars 2018 og góðan fyrirvara þurfi til að undirbúa markaðsefni og auglýsingar fyrir komandi ferðamannatímabil.