Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Dagar Launanefndar eru taldir“
Fimmtudagur 29. nóvember 2007 kl. 17:18

„Dagar Launanefndar eru taldir“

- segir formaður STFS og  kallar eftir hærri eingreiðslum til þeirra launalægstu

Stór hluti félagsmanna  Starfsmannafélags Suðurnesja (STFS) hefur ekki fengið hækkanir  þegar kemur að launauppbótum ef litið er til sambærilegra hópa á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Að sögn Ragnars Arnar Péturssonar, formanns STFS, er um að kenna dugleysi Launanefndar sveitarfélaganna og hvetur sveitarstjórnir á Suðurnesjum til að feta í fótspor sveitarfélaga á höfðuborgarsvæðinu sem hafa hækkað mánaðarlegar eingreiðslur til þeirra starfsmanna sem hafa lægst laun.

STFS telur um 650 félagsmenn og er aðili að fjórum kjarasamningum. Þeir eru við Launanefnd sveitarfélaga, ríkið, vegna félagsmanna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Samtök atvinnulífsins, annars vegar  vegna félagsmanna hjá Hitaveitu Suðurnesja og hins vegar vegna félagsmanna hjá SBK.
Innan þess hóps félagsmanna sem þrýstir á um hærri eingreiðslur eru ófaglært starfsfólk leikskóla, starfsfólk íþróttamannvirkja og grunnskóla og verkamenn við áhaldahús sveitarfélaganna. Fjöldinn sem þar um ræðir er vel á þriðja hundrað og segir Ragnar mikla reiði vera að gerjast innan hópsins. Það er ekki síst um að kenna því sem Ragnar kallar láglaunastefnu Launanefndar sveitarfélaga og kjarkleysi hennar til að ráða við það verkefni sem henni  var falið.

Dagar launanefndar taldir
„Ég tel að dagar Launanefndarinnar séu taldir,“ segir Ragnar. „Þessi láglaunastefna þeirra er ekki að virka, sem betur fer. Sveitarfélögin gáfu henni umboð til að semja fyrir sig, en síðan Reykjavíkurborg ákvað í janúar 2006 að hækka laun þeirra sem lægst höfðu hafa sveitarfélögin farið sínu fram.“
Hann bætir því einnig við að niðurstöður sem hafi orðið á starfsmati, sem öll störf áttu að gangast undir, og Launanefndin átti að sjá um, hafi tafist fram úr hófi og er útséð með að þeim takist  að klára að meta öll störf áður en kjarasamningar renna út í lok nóvember á næsta ári.


„Þetta er að valda mikilli óánægju hjá starfsfólki sem ekki er að fá niðurstöðu mats á störfum sínum. Þessar tafir geta líka valdið miklum fjárútlátum fyrir sveitarfélögin því að ef starfsmat leiðir í ljós að hækkunar sé þörf er hún afturvirk til desember 2002. Þetta er allt á sama veg. Nefndin ræður ekki við verkefnin og ræður ekki við sveitarfélögin sem taka sjálf ákvarðanir um að hækka laun og þannig er eins gott að sveitarfélögin semji bara beint við stéttarfélögin  óháð launanefndinni. Þeir eru of fáliðaðir til að vinna að þessu mikla verkefni og eru ekki vandanum vaxnir “ segir Ragnar.


Eftir að Reykjavíkurborg tók af skarið og hækkaði lægstu launin árið 2006, til að bregðast við manneklu, fylgdu flest sveitarfélög í kjölfarið. Fyrir skemmstu var síðan tilkynnt um frekari hækkanir á mánaðarlegum eingreiðslum í Reykjavík og hafa Kópavogur og Hafnarfjörður þegar fylgt í kjölfarið og von er á fleirum.
Ragnar telur það í raun boða endalok á störfum  Launanefndarinnar eins og þau eru í dag.  „Mér finnst ótrúlegt, eftir allt það sem á undan er gengið, að sveitarfelögin muni enn einu sinni vilja skýla sér á bak við launanefndina í kjarasamningum á næsta ári. Þau sveitarfélög sem vilja vera framsækin, búa vel að íbúum sínum og ráða til sín hæft og metnaðarfullt starfsfólk ná því ekki fram með því að semja í gegnum Láglaunanefnd sveitarfélaganna.“


Ragnar segir að forsvarsmenn annarra starfsmannafélaga innan BSRB séu sammála hans afstöðu. „Það er vægt til orða tekið þegar ég segi að þar sé allt á suðupunkti. Það má segja að eingreiðslurnar, þar sem þeim hefur verið beitt, hafi lagað andrúmsloftið umtalsvert innan þeirra sveitarfélaga, en ef ekki verður gefið í varðandi lægstu launin í næstu kjaraviðræðum mun allt loga í illdeilum og nokkur sveitarfélög munu kljúfa sig út og semja beint.

Sanngirnismál
Stjórn STFS leggur mikla áherslu á að skjólstæðingar þess fái sambærilegar greiðslur og tilkynnt hefur verið um á Stór-Reykjavíkursvæðinu og hefur þegar sent erindi þess efnis til sveitarstjórna á Suðurnesjum.


„Það er ekki verið að tala um að gjörbylta öllu launakerfinu eða flokkum,“ segir Ragnar. „Við viljum setja eingreiðslu á þau laun sem eru undir 160 þúsundum króna og reyna að hækka þau laun án þess að það hafi áhrif á hærri flokka. Tillögur okkar eru þær að eingreiðslur verði 16 þúsund krónur fyrir lægstu flokkana og endi í 6 þúsund krónum svo lægri flokkar fari ekki upp fyrir hærri flokkana.“
Ragnar segir að útgjöld vegna þessara aðgerða eigi ekki að vera mjög þungur baggi á sveitarfélögin, en til dæmis  er gert ráð fyrir að þessi breyting muni kosta Reykjanesbæ um 20-25 milljónir á næsta  ári. 


„Hér er að verða mannekla þar sem erfitt er að ráða í þessi störf og við erum í fyrsta skipti  núna að fá inn beiðni um að ráða erlendan starfsmann inn á leikskóla. Við teljum það vera sanngirnismál að sveitarfélögin hér ræði við okkur á þessum nótum eins og Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður hafa gert og fleiri hafa ákveðið.“
Ragnar segist að lokum vongóður um að sveitarfélögin bregðist  vel við erindi STFS. „Ég trúi og vona að sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum taki upp viðræður við félagið og klári þessi mál með sæmd, svo við sitjum við sama borð og starfsfólk sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.“

Texti: Þorgils Jónsson

Mynd: Frá leikskóla í Reykjanesbæ - Tengist fréttinni ekki að öðru leyti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024