Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Dæmdur til bótagreiðslu vegna sjósleðaslyss við Keflavík
Fimmtudagur 20. júní 2002 kl. 15:33

Dæmdur til bótagreiðslu vegna sjósleðaslyss við Keflavík

Hæstiréttur Íslands hefur fellt dóm í máli Suðurnesjamanna vegna gáleysis við meðferð sæþota sem þeir leigðu sér til skemmtisiglingar 7. ágúst 1990. Þá hefur dómurinn sýknað eigendur sæþotuleigunnar. Sá er valdur var að slysinu er dæmdur til að greiða skaðabætur upp á tvær milljónir króna, auk vaxta.Ari Páll Ásmundsson og Arnar Bjarkarsson, sem leigt höfðu sér sæþotur til skemmtisiglingar, lentu í árekstri með þeim afleiðingum að Arnar Bjarkarsson varð fyrir líkamstjóni. Með hliðsjón af vitneskju þeirra um hættu af slíkum tækjum og aðstæðum í umrætt sinn var talið, að þeir hefðu báðir sýnt af sér slíkt gáleysi að skipta bæri sök á árekstrinum að jöfnu milli þeirra. Ævar Ingólfsson og Gunnar Birnir Gunnarsson, sem ráku sæþotuleiguna, voru ekki taldir hafa brugðist eftirlitsskyldum sínum og ekkert benti til að atburðurinn hefði orðið vegna bilunar eða galla. Voru þeir því sýknaðir af kröfum Arnars Bjarkarssonar. Eins og á stóð og með lögjöfnun frá 2. mgr. 24. gr. þágildandi lögræðislaga nr. 68/1984, sbr. nú 2. mgr. 78. gr. laga nr. 71/1998, þótti rétt að lækka bætur úr hendi Ara Páls Ásmundssonar, enda yrði greiðsla þeirra honum óhæfilega þungbær að öðrum kosti
Í dómsorði segir:Stefndu Ævar Ingólfsson og Gunnar Björn Gunnarsson eru sýknir af kröfu áfrýjanda, Arnars Bjarkarssonar.
Stefndi Ari Páll Ásmundsson greiði áfrýjanda 2.000.000 krónur með vöxtum.

Málsatvik:
Í málinu liggur fyrir að stefnandi og stefndi Ari Páll leigðu sitt hvora sæþotuna (Jet-ski) til skemmtisiglingar kl. 21:35 að kvöldi þriðjudagsins 7. ágúst 1990 af stefndu Ævari og Gunnari Birni, sem ráku sæþotuleigu undir nafninu „Sjósleðaleigan“ í skúr við Duus-bryggju í Keflavík. Leigan, sem aðeins var starfrækt frá maílokum 1990 til 1. september sama ár, var ekki skráð í firmaskrá. Í tengslum við reksturinn hafði stefndi Ævar keypt ábyrgðartryggingu og einnig slysatryggingu af réttargæslustefnda. Í leigusamningi, sem stefnandi og stefndi Ari Páll undirrituðu hvor fyrir sig, segir meðal annars að leigutaka hafi verið sérstaklega gerð grein fyrir hættu, sem geti verið samfara notkun hinnar vélknúnu sæþotu, sem hann taki á leigu og að leigutaki skuldbindi sig til þess að sýna fyllstu varkárni og halda hraða sæþotunnar innan þeirra marka að hvorki leigutaka né öðrum stafi hætta af. Þá undirrituðu piltarnir enn fremur yfirlýsingu um að þeir tækju fulla ábyrgð á sjálfum sér og á öðrum sem þeir kynnu að valda tjóni. Stefnandi var 16 ára er hann gerði samninginn og stefndi Ari Páll á 16. aldursári. Af hálfu piltanna er viðurkennt að starfsmaður leigunnar, Einar Jónsson, hafi brýnt fyrir þeim í upphafi leigutímans að fara varlega, að fara ekki of langt frá landi og eigi heldur of nærri og að halda að minnsta kosti 50-100 metra bili á milli tækjanna. Leigugjald mun hafa verið 1.500 krónur fyrir hvora sæþotu og leigutíminn hálf klukkustund. Fyrir liggur að ekki voru aðrar sæþotur í útleigu á sama tíma. Þegar leigutíminn var úti setti Einar upp númeraspjöld á skúrinn til merkis um að piltarnir skyldu sigla í land. Að sögn Einars hefðu þeir ekki sinnt þeim boðum og því hefði hann veifað til þeirra. Piltarnir tóku í framhaldi stefnuna á Duus-bryggju, en síðan gerðust einhver þau atvik, sem urðu til þess að árekstur varð milli sæþotanna með þeim afleiðingum að stefnandi slasaðist alvarlega. Málsaðila greinir á um orsök eða orsakir slyssins.
Lögregla kom á vettvang kl. 22:27. Í frumskýrslu, sem gerð var vegna málsins, segir að stefnandi hafi greint lögreglu frá því að hann og stefndi Ari Páll hefðu verið á leið í land á sitt hvorri sæþotunni þegar Ari Páll hefði misst stjórn á sinni sæþotu og hún lent með fullum þunga á vinstra læri stefnanda. Í sömu skýrslu segir að stefndi Ari Páll hafi tjáð lögreglu að hann og stefnandi hefðu verið á leið í land og hann verið rétt ókominn að stefnanda, með sæþotu sína í „botn-inngjöf“, þegar stefnandi hefði snúið sinni sæþotu þannig að sjór hefði gusast framan í andlit Ara Páls, hann blindast og misst stjórn á sæþotu sinni með framangreindum afleiðingum. Svo virðist sem ekki hafi verið frekar aðhafst af hálfu lögreglu fyrr en í febrúar 1992, en þá voru, að beiðni réttargæslustefnda, teknar skýrslur af stefnanda, stefndu Gunnari Birni og Ara Páli og vitnunum Einari Jónssyni og Sigríði Birnu Björnsdóttur, sambýliskonu stefnda Gunnars Björns.
Stefnandi skýrði lögreglu svo frá að hann hefði verið búinn að fara 12-15 sinnum á sæþotu fyrir slysið og hefði honum í upphafi verið sagt til um notkun og stjórn slíkra tækja. Hann kvaðst hafa verið á hægri siglingu, á „spegilsléttum sjó“ í um 300 metra fjarlægð frá bryggju við sæþotuleiguna þegar hann hefði séð að veifað var til þeirra félaga að koma í land. Á sama tíma hefði stefndi Ari Páll verið um 100-200 metrum utar og verið að snúa við. Stefnandi hefði síðan tekið rólegan sveig og í framhaldi heyrt í sæþotu Ara Páls fyrir aftan sig. Þegar hann hefði litið við hefði sæþota Ara Páls skollið á sæþotu hans, runnið upp eftir henni og lent á vinstra læri hans.
Stefndi Ari Páll kvaðst hafa verið búinn að leigja sæþotur í 10-20 skipti fyrir slysið. Hann kvað slysið hafa orðið með þeim hætti að þeir félagar hefðu verið „að snúa við á punktinum“, en það sé gert með því að keyra á fullri ferð og beygja síðan í botn. Við það snúist sæþotan og sökkvi að framan. Greint sinn hefði stefnandi Arnar verið nýbúinn að snúa við og hann sjálfur verið á fullri ferð „með allt í botni“ þegar hann hefði allt í einu séð Arnar fyrir framan sig. Að sögn stefnda hefði hann ekkert getað gert til að afstýra árekstri við Arnar. Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hvað hefði gerst, þ.e. hvort Arnar hefði siglt í veg fyrir hann eða hvort hann hefði siglt Arnar uppi.
Einar Jónsson kvaðst hafa verið að vinna á sæþotuleigunni umrætt sinn og hefði hann afgreitt piltana tvo. Hann kvaðst hafa séð þegar þeir sigldu í átt að bryggju við sæþotuleiguna í lok leigutímans. Piltarnir hefðu verið á mikilli ferð og lítið bil verið á milli sæþotanna; aðeins 2-3 metrar. Í stað þess að koma að bryggjunni hefðu þeir beygt í sitt hvora áttina og haldið aftur til hafs, en því næst sveigt sæþotunum að hvor annarri aftur „á þrælmikilli ferð“ og hefði sá er síðar hefði beygt siglt aftan á hinn og sæþota hans farið upp á hina. Að sögn Einars hefðu sæþoturnar verið um 150-200 metra frá landi þegar áreksturinn varð.
Stefndi Gunnar Björn og Sigríður Birna Björnsdóttir voru stödd við sæþotu-leiguna þegar áreksturinn varð. Gunnar Björn bar að sæþoturnar hefðu ekki verið leigðar út til fólks yngra en 16 ára. Hann kvaðst muna eftir að piltarnir tveir hefðu verið brýndir á helstu reglur sæþotuleigunnar og að þeir hefðu sagt að þeir þekktu til reglnanna því þeir væru búnir að fara svo oft á sæþotu. Að sögn Gunnars hefðu piltanir farið að settum reglum fram að því er þeir hefðu verið kallaðir í land, en þá hefðu þeir farið að sigla nærri hvor öðrum. Hann kvaðst ekki hafa séð sæþoturnar rekast á, en þegar þær hefðu verið um 100 metra frá landi hefði hann séð að þær voru kyrrstæðar hjá hvor annarri. Í framhaldi hefði hann áttað sig á því að eitthvað hefði komið fyrir.
Sigríður Birna kvað piltana hafa verið að sigla í átt að landi þegar þeim hefði verið gert ljóst að þeir ættu að koma að bryggju. Þeir hefðu ekki sinnt þeim boðum, en þess í stað haldið áfram til hliðar í hring. Að sögn Sigríðar hefði ekki verið hægt að tala um sérstakan glannaskap af hálfu piltanna, en þeir hefðu samt siglt óþarflega nærri hvor öðrum. Hún hefði síðan séð greinilega er sæþoturnar hefðu skollið saman.
Stefnandi var fluttur á Sjúkrahús Keflavíkur eftir slysið, þar sem teknar voru röntgenmyndir af vinstri lærlegg. Í ljós kom þverbrot á neðri þriðjung lærleggsins með hliðrun og styttingu. Hann var síðan fluttur á bæklunarskurðdeild Landspítalans þar sem hann gekkst undir aðgerð á læri. Gert var að brotinu með því að setja það í réttar skorður og festa með mergnagla. Stefnandi var útskrifaður 24. ágúst 1990 og gekk þá við hækjur. Gögn málsins bera með sér að við læknisskoðun 21. október sama ár hafi vinstri ganglimur mælst 0,5 cm styttri en sá hægri. Stefnandi hefur æ síðan átt við meiðsli að stríða í vinstra hné og var meira og minna undir læknishendi í rúm fimm ár frá slysdegi; einnig vegna verkja í baki og vinstri mjöðm. Hann gekkst undir aðgerð 12. september 1991, en þá var mergnaglinn fjarlægður, auk þess sem liðspeglun var gerð á vinstra hné. Á árinu 1993 greindust brjóskskemmdir undir vinstri hnéskel og í ljós kom að ytri liðþófi var rifinn. Hluti hans var því fjarlægður með aðgerð (liðspeglun). Við skoðun í nóvember 1995 mun stefnandi hafa verið með vaxandi bakverk og þráláta verki í vinstra hné og greindust sem fyrr slitbreytingar í hnénu, auk þess sem í ljós kom rifa í innri liðþófa. Var því hluti þess liðþófa fjarlægður með liðspeglun 24. sama mánaðar.
Fyrir liggur að Atli Þór Ólason sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum mat örorku stefnanda 5. nóvember 1992 og einnig Jónas Hallgrímsson læknir 16. apríl 1993. Að áliti þeirra var varanleg örorka stefnanda vegna nefnds slyss metin 15%. Stefnandi gekkst þriðja sinni undir örorkumat haustið 2000, sem framkvæmt var af Atla Þór Ólasyni. Í örorkumatinu, sem dagsett er 28. september 2000, segir meðal annars svo um læknisskoðun á stefnanda:
„Arnar gengur eilítið haltur á vinstra fæti. Fær aukin óþægindi í vinstra hné og mjöðm við að ganga með bogin hné. Greinileg rýrnun er á lærvöðvum ofan vinstri hnéliðar. ... Nokkur eymsli finnast utanvert á vinstra mjaðmarsvæði, yfir mjaðmarhnútu og inn í nára. 11 cm vel gróið aðgerðarör er utanvert á mjaðmarsvæði. 9 cm langt ör er neðan á lærinu utanverðu. Verkur kemur fram við hreyfingu í mjaðmarlið. ... Í vinstra hné eru eymsli innan- og utanvert yfir liðglufum svo og undir hnéskel. Mikið brak og hrjúfleiki finnst undir hnéskel við hreyfingu hnéliðar. Við að pressa liðfleti saman kemur fram verkur.“ Sjúkdómsgreining samkvæmt örorkumati er sem hér segir:
1) Gróið brot á vinstri lærlegg (háð sjósleðaslysi 07.08. 1990).
2) Tognun í vinstra hné með sköddun á liðþófum og liðbrjóski einnig
undir hnéskel (háð sjósleðaslysi 07.08. 1990).
3) Erting við vinstri mjöðm ásamt dofa á vinstra læri (háð sjósleðaslysi
07.08. 1990).
4) Rof á 5. mjóhryggjarboga (óháð sjósleðaslysi 07.08. 1990).
5) Mjóhryggjaróþægindi (hugsanlega að hluta tengt sjósleðaslysi
07.08. 1990).
Niðurstaða örorkumats er síðan svohljóðandi:
,,Fyrir sjósleðaslysið 07.08. 1990 var Arnar Bjarkarsson einkennalaus frá baki og ganglimum. Í slysinu var Arnar á sjósleða er annar sjósleði kom á fullri ferð á vinstri hnélið hans og olli áverka á læri og hné. Áverki á hné var þverbrot á læri sem meðhöndlað var með innri beinfestingu og greri eðlilega. Auk þess hlaut Arnar áverka á vinstra hné og hefur haft óþægindi þar allt frá slysinu.
Í dag hefur hann ertingarhné með eymslum innan- og utanvert á hnélið svo og undir hnéskel og greinst hefur rifinn liðþófi sem hefur verið fjarlægður. Slitbreytingar eru greinilegar í hné. Þá var þekkt við fyrri örorkumöt dofi á vinstra læri. Frá því örorkumöt voru gerð hafa komið fram meiri óþægindi í vinstra hné og gerðar hafa verði speglanir og aðgerðir sem ekki hafa bætt ástand. Óþægindin virðast fara vaxandi og draga úr starfsgetu Arnars. Hann hefur mikil eymsli í hnénu og vöðvarýrnun á læri sem merki um að hann beiti vinstra fæti minna en þeim hægra. Þá er kraftur í fætinum heldur minni vinstra en hægra megin. Allt þetta getur leitt til þess að álag á mjóhrygg verði meira en ella.
Arnar hefur frá 1995 haft bakóþægindi en röntgenmyndir hafa sýnt meðfæddan byggingargalla. Hugsanlegt er að einhver hluti óþægindanna verði rakinn til skakks álags á bak vegna hnéóþæginda. Telja verður að ástand Arnars hafi versnað frá 1992. Varanleg örorka er metin 20%.
Við sjósleðaslysið þann 07.08. 1990 varð Arnar Bjarkarsson fyrir eftirfarandi starfsorkuskerðingu:
Tímabundin örorka:
Frá slysadegi 07.08. 1990 til 31.12. 1990 100%
Frá 01.01. 1991 til 01.03. 1991 50%
Frá 02.03. 1991 til 11.09. 1991 0%
Frá 12.09. 1991 til 12.11. 1991 100%
1993 í einn mánuð 100%
Frá 24.11. 1995 einn mánuður 100%
Varanleg örorka 20%“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024