Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 1. apríl 2004 kl. 19:00

Dæmdur í 2 ára fangelsi fyrir nauðgun

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness um að Marlowe Oyod Diaz sæti 2 ára fangelsi fyrir að nauðga konu á heimili hennar í janúar á síðasta ári. Þá var maðurinn einnig dæmdur til að greiða konunni 600 þúsund krónur í bætur.
Maðurinn ók konunni heim af skemmtistað í Keflavík síðla nætur og bað um leyfi til að fá að fara á salerni hjá henni. Sagði konan, að síðan hafi maðurinni þröngvað sér gegn neitun sinni til samræðis og beitt aflsmunum. Kvaðst hún hafa orðið skelfingu lostin, lömuð af hræðslu og hreinlega frosið er maðurinn lagði til atlögunnar.

Maðurinn neitaði fyrst um sinn alfarið við yfirheyrslur að hafa átt samræði við konuna en breytti síðar framburði sínum þegar niðurstöður DNA-rannsóknar lágu fyrir og kvað þau hafa haft samfarir að frumkvæði og frjálsum vilja konunnar.

Hæstiréttur staðfesti sakfellingu mannsins með vísan til forsendna héraðsdóms, sem þótti framburður konunnar, gegn neitun mannsins, trúverðugur og fann hann sekan. Segir í héraðsdómnum að ekki sé vafi á því að konan hafi vegna nauðgunarinnar orðið fyrir alvarlegu andlegu og tilfinningalegu áfalli, sem komi til með að há henni um ókomna framtíð.

Dóminum þótti einnig að háttsemi mannsins bæri merki um fullkomið virðingarleysi gagnvart kynfrelsi konunnar. Hún hafi ekkert þekkt til hans og ekki gefið honum neitt tilefni til að ætla að hún vildi hafa við hann kynmök og hafi að auki beðið hann að hætta er hann neytti aflsmunar og þröngvaði hana til kynmaka. Ætti hann sér engar málsbætur. Morgunblaðið á Netinu greinir frá þessu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024