Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Dæmdir fyrir árás með rafbyssu
Föstudagur 4. apríl 2008 kl. 12:36

Dæmdir fyrir árás með rafbyssu

Tveir menn voru í gær sakfelldir í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að hafa ráðist á mann á heimili hans í Garðinum í septembermánuði 2006.


Var m.a. beitt rafstuðbyssu í árásinni. Þriðji maðurinn var einnig ákærður en var sýknaður af öllum kröfum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Voru þeir dæmdir fyrir húsbrot og líkamsárás, en annar var auk þess dæmdur fyrir brot á vopnalögum fyrir að hafa haft rafbyssuna undir höndum.

Samkvæmt dómsskjölum töldu mennirnir að fórnarlambið tengdist stuldi á tveimur vélhjólum í þeirra eigu og ætluðu þeir að fá þau til baka.


Báru þeir fyrir dómi að þeir hefðu ekki haft neitt annað í huga en að „endurheimta hjólin með friðsamlegum hætti."


Báru ákærðu að þeir hafi vissulega komið að heimili kæranda, farið inn óboðnir og rætt þar við eiginkonu hans sem sagði þeim að kærandi væri í bílskúrnum. Hann hafi ekki viljað opna fyrir ákærðu og hafi þeir því sótt sleggju í bílinn og brotist með henni inn í bílskúrinn.


Þar upphófust átök sem aðilum ber ekki saman um. Ákærðu segja kæranda hafa veist að þeim með kylfu og þeir tekist á við hann til að hemja hann „til að koma í veg fyrir frekari barsmíðar af hans hálfu".


Kærandi ber því hins vegar við að hann hafi beitt kylfunni í sjálfsvörn. Hann kannaðist ekkert við vélhjólin sem þeir spurðu hann um, en átökunum hafi lokið með því að hann hafi verið tekinn hálstaki af öðrum hinna ákærðu og hinn hafi þá beitt á hann rafstuðbyssunni.


Lögregla kom á vettvang skömmu síðar og báru þeir að áverkar hafi verið sjáanlegir á kæranda.


Ákærðu báru að í kjölfar uppákomunnar hafi þeim borist hótanir og hafi þeir borgað mönnum, sem þeir telja að tengist kæranda, 300.000 krónur til að fá umrædd vélhjól auk þess sem þeir hafi látið kæranda fá fólksbílakerru til að fá að vera í friði.


Í dómsúrskurði segir að framganga ákærðu hafi einkennst af miklu offorsi og að ekkert hafi komið fram sem styðji það að kærandi hafi átt aðild að hverfi hjólanna. Aðförin hafi verið ófyrirleitin, sérstaklega þar sem ákærðu hafi engu skeytt um það að börn kæranda hafi orðið vitni að atburðunum.


Sá ákærðu sem beitti rafbyssunni fékk sex mánaða dóm, skilorðsbundinn í fjóra mánuði, og hinn fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm.


Ákærðu skulu einnig greiða 124.500 kr. hvor um sig í málvarnarlaun og 8500 kr. í annan sakarkostnað.