Dældu öllu vatni úr Bláa lóninu
- Opna stærra og endurhannað lón 22. janúar
Bláa lóninu var lokað á mánudagskvöld og hefur lónið verið tæmt. Framkvæmdir við stækkun og endurhönnun upplifunarsvæðis Bláa lónsins hófust þá en hluti framkvæmdanna var að tæma lónið sjálft.
Magnea Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Bláa lónsins, sagði í samtali við Víkurfréttir í gær, að verkefnið hefði farið vel af stað. „Lónið var tæmt á þremur klukkustundum. Verkefnið sem er tæknilega flókið gekk því vonum framar.“
Stækkun Bláa lónsins er hluti af stærri verkefni sem felst í nýju hraun upplifunarsvæði og lúxus hóteli sem mun opna árið 2017. Stærra lón mun tengja lónssvæðið og nýtt upplifunarsvæði. Það er Sigríður Sigþórsdóttir hjá Basalt Arkitektum sem er aðalhönnuður verkefnisins.
Grindvíkingurinn Hartmann Kárason stýrir verkefninu og öðrum nýframkvæmdum Bláa lónsins. Hann sagði við Víkurfréttir að verkefnið sem væri afar krefjandi hefði gengið vel.
„Stór þáttur í því er hversu samstilltur og góður hópur fólks starfar að verkefninu, en alls koma um 100 starfsmenn að þessu spennandi verkefni,“ segir Hartmann.
Stefnt er að því að opna endurnýjað og stærra lón þann 22. janúar næstkomandi.
Helstu breytingar verða eftirfarandi:
Baðlón er stækkað um helming.
Nýr Skin Care bar mun auka aðgengi að hinum fræga, hvíta Blue Lagoon kísilmaska.
Nýtt spa-svæði fyrir Blue Lagoon spa-meðferðir.
Nýtt veitingasvæði.
Betri aðstaða fyrir gesti.