Daði sækist eftir 2.-4. sæti hjá Framsókn
Daði Geir Samúelsson, rekstrarverkfræðingur og formaður umhverfisnefndar Hrunamannahrepps sækist eftir 2. – 4. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi sem fer fram 10. apríl nk. Daði hefur verið virkur í starfi ungra framsóknarmanna síðan 2017. Hann situr í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna og einnig í stjórn Guðna, félags ungra framsóknarmanna í Árnes- og Rangárvallasýslu.
Umhverfis-, atvinnu- og byggðamál brenna heitast á Daða auk þess að efnahagsmál fanga athygli hans. Daði vil að passað sé vel upp á umhverfið og það sé virt en jafnframt nýtt á skynsaman hátt sem styður við atvinnu og byggðir um allt land.
„Tímarnir hafa sýnt að með því að tryggja gott netsamband, um allt land, er hægt að vinna svo til hvar sem er á landinu og hvernig störf án staðsetningar raungerðust á einni nóttu og það var ekki eins mikið mál og oft hefur verið nefnt. Við þurfum að tryggja að sú þróun haldi sér og styðji við byggð um allt land. Við sem samfélag verðum aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn,“ segir Daði í tilkynningu til VF.