D-deildin enn í sóttkví
Noro-sýkingin sem herjað hefur á starfsfólk og sjúklinga HSS er í rénum. Gripið var til viðbúnaðar í síðustu viku til að koma í veg fyrir frekara smit og var D-deildin sett í sóttkví í því skyni. Sigurður Þór Sigurðarson, framkvæmdastjóri lækninga við HSS, segir þær ráðstafanir enn í gildi en vonandi verði þetta gengið yfir nú í vikulokin.
„Þetta er búið að vera óvenjuslæmt,“ sagði Sigurður um sýkinguna en pestin hefur verið að stinga sér niður á meðal almennings að undanförnu og fylgir henni ófögnuður eins og niðurgangur, uppköst, hiti og kviðverkir. „Þetta varir yfirleitt í um það bil sólarhring en fólk er smitandi í tvo til þrjá sólarhringa á eftir þannig að það er mikilvægt að fólk sem veikist haldi sig heimavið í þann tíma,“ sagði Sigurður.