D-deild HSS: Einstaklingur með þrefalt hærra framlag en Ríkissjóður
D-deild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á sannarlega hauk í horni þegar kemur að tækjavæðingu deildarinnar. Sigurður Wíum hefur á þessu og síðasta ári fært deildinni að gjöf ýmsan tækjabúnað að verðmæti rétt tæpar 5,7 milljónir króna. Sú upphæð er þrefalt hærri en sú sem Ríkissjóður leggur til tækjakaupa hjá Heilbrigðisstofun Suðurnesja á ári. Stofnunin er því algjörlega undir því komin að einstaklingar eins og Sigurður og líknarsamtök og félög gefi stofnuninni gjafir sem þessar.
Sigurði Wíum var í gærdag boðið í móttöku á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem honum voru færðar sérstakar þakkir fyrir rausnarskap og hlýhug sinn til D-deildarinnar en á þakkarskjali sem honum var fært í gær kemur fram að Sigurður sé vendari D-deildarinnar og gjafir hans séu af miklu örlæti í þágu sjúklinga og starfsfólks.
Gjafirnar sem Sigurður Wíum hefur fært deildinni eru fjórar súrefnissíur, fullkominn sjúklingalyftari, flutningshjálpartæki, fimm fullkomin Völker sjúkrarúm með náttborðum og öllum búnaði, sprautupumpa til lyfjagjafar, tveir flutningshjólastólar með sessum og fótahvílum, tvær háar göngugrinfur og blóðþrýstingsriti með eyrnahitamæli.
Frá afhendingu tækjanna. Sigurður Wíum ásamt helstu stjórnendum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Sigurður Wíum við hluta af gjöfunum sem hann hefur fært D-deildinni á þessu og síðasta ári.