Codland, Keilir og Þekkingarsetur í samstarf
– Samstarf sjávarútvegsfyrirtækja og menntastofnana á Suðurnesjum
Codland, Keilir og Þekkingarsetur Suðurnesja hafa gert með sér samkomulag sem miðar að verðmætasköpun í sjávarútvegi með því að tengja saman mennta- og rannsóknastofnanir og fyrirtæki í sjávarútvegi.
Codland er fullvinnslufyrirtæki í sameiginlegri eigu sjávarútvegsfyrirtækja með það að markmiði að skapa grundvöll fyrir frekari þróun í sjávarútvegi. Hlutverk Codland er að efla ímynd haftengdrar starfsemi, hámarka fullnýtingu á fisktengdum afurðum og hvetja til umræðu og samstarfs sem skilar sér í auknu verðmæti afurða.
Codland, Keilir og Þekkingarsetur Suðurnesja hafa gert með sér samkomulag sem stefnir að ofangreindum markmiðum. Með því er verið að leiða saman fyrirtæki í sjávarútvegi annars vegar og hins vegar samfélag mennta og vísinda. Þannig eru tvær auðlindir tengdar saman í þeirri trú að verðmæti aukist enn frekar.
Keilir ræður yfir einstakri aðstöðu til rannsókna og þróunarverkefna, ásamt sérhæfðum búnaði og tæknismiðju. Þá hafa fyrirtæki, meðal annars í sjávarútvegi, sóst í auknu mæli eftir því að háskólanemendur Keilis í tæknifræði takið að sér styttri og lengri verkefni. Út úr því samstarfi hafa nú þegar orðið til mörg athyglisverð nýsköpunarverkefni.
Þekkingarsetur Suðurnesja leggur m.a. áherslu á rannsóknir og athuganir á lífríki sjávar. Aðstaðan í Sandgerði býður upp á fjölbreytileg tækifæri sem meistara- og doktorsnemar nýta sér dyggilega ásamt innlendum og erlendum rannsóknastofnunum.
Með samstarfinu krækja fyrirtækin höndum saman um að nýta þau tækifæri sem auðlindir hafs og hugar fela í sér.