Clinton snæðir ásamt dóttur sinni í Bláa Lóninu í kvöld
Bill Clinton fyrrverandi forseti Bandaríkjanna er kominn til Íslands, en hann lenti á einkaþotu sinni á Keflavíkurflugvelli klukkan 13:00 í dag. Björn Ingi Knútsson flugvallarstjóri sagði að koma Clintons hafi farið hljótt og sagði Björn að öryggisgæsla hefði ekki verið aukin í kjölfar komu fyrrverandi forsetans: „Það sem ég veit er að dóttir hans er með honum í för og það virtist liggja vel á þeim þegar þau komu í fríhöfnina. Þau skoðuðu sig vel um í Íslenskum markaði og Clinton keypti m.a. lopapeysu. Ég veit ekki hvert förinni er heitið en þau eru farin af svæðinu,“ sagði Björn Ingi í samtali við Víkurfréttir. Síðasta haust var því fyrst fleygt að Clinton hefði áhuga á því að koma til Íslands til að spila golf en frá þeim tíma hefur engin dagsetning verið nefnd. Hörður Guðmundsson formaður Golfsambands Íslands hefur verið í sambandi við skrifstofu Clintons í New York með reglulegu millibili, en Hörður sagði að ákvörðun um golfferð Clintons nú hefði verið tekin með stuttum fyrirvara: „Mér skilst að hann hafi verið í Þýskalandi þar sem hann hélt ræðu hjá þýska fjölmiðlasambandinu, en hann ferðast um allan heim og er virtur fyrirlesari. Ég veit að Clinton mun heimsækja Varnarliðið en það verður ekki opinber heimsókn,“ sagði Hörður þegar Víkurfréttir ræddu við hann um eittleytið. Hörður sagði að vegna snjókomunnar í nótt væri augljóst að Clinton myndi ekki spila hring á golfvellinum í Leirunni: „Við buðum Clinton að prófa golfherminn í gamla HF í staðinn og hann þáði það boð. Páll Ketilsson mun taka á móti Clinton klukkan 17 í dag við gamla HF.“
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta ætla Clinton og dóttir hans Chelsea að fara í Bláa Lónið áður en þau halda heimleiðis. Þau munu vilja baða sig og snæða kvöldverð á eftir. Magnea Guðmundsdóttir markaðsstjóri Bláa Lónsins vildi ekki staðfesta þetta í samtali við Víkurfréttir, en sagði að von væri á stórmerkum gestum í lónið um klukkan 18 í dag. Víkurfréttir munu að sjálfsögðu fylgjast með málinu í dag.
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta ætla Clinton og dóttir hans Chelsea að fara í Bláa Lónið áður en þau halda heimleiðis. Þau munu vilja baða sig og snæða kvöldverð á eftir. Magnea Guðmundsdóttir markaðsstjóri Bláa Lónsins vildi ekki staðfesta þetta í samtali við Víkurfréttir, en sagði að von væri á stórmerkum gestum í lónið um klukkan 18 í dag. Víkurfréttir munu að sjálfsögðu fylgjast með málinu í dag.