Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Clint Eastwood kominn til Reykjanesbæjar
Föstudagur 15. júlí 2005 kl. 22:00

Clint Eastwood kominn til Reykjanesbæjar

Clint Eastwood, leikarinn og leikstjórinn heimskunni, er í Reykjanesbæ. Hann kom hingað í dag og hefur meðal annars verið að skoða tökustað í Sandvík á Reykjanesi. Þar dvaldi hann í um klukkustund í dag og skoðaði aðstæður vel.

Eins og kunnugt er mun Clint Eastwood leikstýra stórmyndinni Flags of our Fathers sem verður tekin að stórum hluta í bæjarlandi Reykjanesbæjar og einnig við Arnarfell í Krýsuvík, í landi Hafnarfjarðar.

Ekki hefur ennþá fengist uppgefið hvar þessi heimsþekkti kappi muni gista á meðan Íslandsveru hans stendur. Hans óskir stóðu til látlausrar gistingar utan skarkala höfuðborgarinnar og voru Reykjanesbær og Hafnarfjörður efst á óskalistanum.

Umboðsaðilar kvikmyndarinnar Flags of our Fathers neituðu því í dag að Clint væri væntanlegur til landsins í dag. Hann mætti hins vegar í Sandvík með þéttskipaða dagskrá síðdegis og dvaldi þar í klukkustund eins og áður segir. Hvort síðan var haldið að Arnarfelli í Krýsuvík er ekki vitað, né heldur er vitað hvar kappinn verður í nótt.

Myndin: Eastwood að koma til Keflavíkur? Þetta er ein af smærri þotum sem komið hafa til Keflavíkurflugvallar í dag. Hvort Clint  var um borð í þessari skal ósagt látið en svo mikið er víst að kappinn er kominn á Klakann!  VF-mynd: Hilmar Bragi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024