Citystar Airlines hefur sig á flug
Í gær fór hið nýja skosk-íslenska flugfélag, Citystar Airlines, í sitt fyrsta flug frá Íslandi. Ferðinni var heitið til Glasgow í Skotlandi með fulla vél af mótorhjólaáhugamönnum á vegum SBK í Keflavík.
Citystar Airlines flýgur Dornier 328 turbo prop vél, sem er vel búin 32 leðursætum og þykir öll hin glæsilegasta. Mun flugfélagið hefja áætlun sína í Aberdeen í Skotlandi þann 28. mars n.k. og verður þá flogið til Osló. Þess á milli mun það vera í leiguflugum, m.a. milli Íslands og Skotlands.
Citystar Airlines munu fljúga undir íslensku flugrekstarleyfi í samstarfi við Landsflug á Íslandi.
Þessar myndir voru teknar af vélinni þegar hún var nýlent á Keflavíkurflugvelli á fimmtudagskvöldið.
VF-myndir: Páll Ketilsson