City Star hætt starfsemi
Flugfélagið City Star Airlines sem er í eigu margra Suðurnesjamanna og stjórnað af bræðrunum Rúnari og Atla Árnasonum hefur hætt starfsemi. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins.
Í tilkynningunni kemur fram að ákvörðunin tengist því að ein flugvél hafi orðið fyrir alvarlegum skemmdum á Aberdeen flugvelli 25. nóvember síðastliðinn en félagið hafði fjórar Dornier flugvélar í flota sínum. Önnur vél hefur verið biluð þannig að ekki var hægt að halda úti þeirri starfsemi sem félagið hefur gert frá Aberdeen flugvelli til nokkurra áfangastaða í Noregi, m.a. Osloar, Stavanger, Kristiansand og Bergen.
Hluthafafundur var nýlega haldinn í Grindavík þar sem kynnt var erfið staða félagsins og ákvörðun um að hætta starfsemi, alla vega um sinn. Vitað er að á sama tíma og sú staða var kynnt hafa forráðamenn City Star reynt að fá til sín fleiri hluthafa.
Á fundinum var ekki hægt að sýna tölur úr bókhaldi þar sem það lá ekki fyrir. Einhverjir hluthafa munu hafa gagnrýnt það og lýst yfir furðu sinni á því.
http://www.citystarairlines.com/