Byrgið flytur úr Rockvill
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta mun meðferðarheimilið Byrgið verða flutt á næstunni og koma þrír staðir til greina. Ekki fæst uppgefið um hvaða staði er að ræða, en Guðmundur Jónsson forstöðumaður Byrgisins sagði í samtali við Víkurfréttir að hann væri ánægður með niðurstöðu samstarfshóps ráðuneyta sem fjallaði um málefni Byrgisins á fundi sem var að ljúka. Á fundinum voru fulltrúar frá félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, utanríkisráðuneyti, auk fulltrúa frá varnarmálaskrifstofu og segir Guðmundur að niðurstaða fundarins tryggi framtíð Byrgisins og sé viðurkenning fyrir gott starf: „Davíð Oddsson forsætisráðherra lét frá sér fara minnisblað til samstarfshópsins þar sem hann vildi tryggja framtíð Byrgisins og því góða starfi sem þar fer fram. Niðurstaða fundarins er sú að Byrgið verður flutt, skuldir greiddar og rekstrargrundvöllur tryggður til framtíðar. Ég er gríðarlega ánægður með þessa niðurstöðu og nú tekur við tími flutninga og uppbyggingar á nýjum stað. Ég vil taka fram að við þökkum fyrir frábærar móttökur og aðhlynningu Suðurnesjabúa síðustu fjögur ár, en okkur hefur liðið gríðarlega vel hér, “ sagði Guðmundur. Í tilefni af frétt Fréttablaðsins sem birtist í morgun en þar var greint frá fordómum í garð sundlaugargesta frá Byrginu sem eru með húðflúr. Guðmundur vill taka skýrt fram að hann hafi ekki sagt við fréttamann Fréttablaðsins að þetta væri rödd bæjarbúa heldur bæjarstjórnar: „Ég sagði fréttamanni og tók það skýrt fram að þessir fordómar í garð Byrgisins væru ekki frá bæjarbúum, heldur bæjarstjórn. Það lítur þannig út fyrir mér að bæjarstjórn hafi frá upphafi ekki verið sátt við tilveru Byrgisins hér í nágrenni Sandgerðis og núna getur Sigurður bæjarstjóri sótt kúlurnar sem hann vill fá sitthvoru megin við bæjarmörkin í Sandgerði. Heimildir Víkurfrétta herma að þrír staðir komi til greina sem framtíðarstaður Byrgisins, einn á suðvesturlandi og tveir á suðurlandi, en allir staðirnir eru stutt frá höfuðborgarsvæðinu.
Ljósmyndin er tekin í jólahlaðborði Byrgisins sem haldið var um síðustu helgi.
Ljósmyndin er tekin í jólahlaðborði Byrgisins sem haldið var um síðustu helgi.