Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Byrgið átti að bæta ímynd varnarliðsins
Laugardagur 3. febrúar 2007 kl. 10:45

Byrgið átti að bæta ímynd varnarliðsins

Utanríkisráðuneytið taldi það til bóta fyrir neikvæða ímynd varnarliðsins að lána Rockville undir starfsemi Byrgisins, sem mun hafa ráðið því að samningi stjórnvalda við Byrgið var ekki rift. Byrgið stóð aldrei við samninginn.
Í minnisblaði varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins frá þeim tíma þegar flutningur Byrgisins í Rockville kom til tals, segir að það væri gott fyrir almannatengsl varnarliðsins að Byrgið yrði flutt í Rockville „ekki síst sem mótvægi við fréttaflutning undanfarinna ára af slæmum viðskilnaði Varnarliðsins á varnarsvæðum". Þetta kemur fram í fréttum Ríkisútvarpsins.

Þar kemur einnig fram að yfirmaður varnarliðsins þáði heimboð í Byrgið í ársbyrjun 2001. Í bréfi til íslenska utanríkisráðuneytinu segist hann þess fullviss að ríkisstjórn Íslands átti sig á mikilvægi meðferðarheimilisins og vilji líkt og hann sjálfur að því vegni vel. Yfirmaðurinn segist hafa fyrirskipað starfsfólki sínu að gera áætlun um það hvernig varnarliðið geti skilað Rockville-svæðinu af sér. Meginhagsmunir varnarliðsins séu að losna undan skaðabótaskyldu eða ábyrgð en á sama tíma stuðla að áframhaldandi starfsemi meðferðarheimilisins.

Í minnisblaði utanríkisráðuneytis frá 2001 eru vanefndir Byrgisins á samningnum um afnotin af Rockville tíundaðar. Hálfrar miljónar króna tryggingu var aldrei skilað til ráðuneytisins. Þá segir að ráðuneytið hafi ekki gengið hart eftir þessu þar sem ljóst sé að Byrgið njóti ekki mikils lánstrausts. Byrgismenn skiluðu aldrei inn teikningum og því var hvorki hægt að framkvæma heilbrigðis-, eldvarnar- né vinnueftirlit. Byrgið skilaði heldur ekki inn skýrslum um störf sín og fjárhagsstöðu. Í minnisblaðinu segir að ráðuneytið geti ekki beitt Byrgið sterkum úrræðum því mjög erfitt sé pólitískt að segja upp samningnum við Byrgið og vísa því úr Rockville.

Eftir að utanríkisráðuneytið fékk upplýsingar 2003 um að hugsanlega væri mikið af asbesti í Rockville var ákveðið að koma Byrginu þaðan svo kostnaður við rif og hreinsun félli á varnarliðið en ekki íslenska ríkið", segir í frétt Ruv.

Mynd: Forstöðumaður Byrgisins á glæsijeppanum í Rockville.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024