Byggja við íþróttamiðstöðina í Garði
Sveitarfélagið Garður hefur undirritað verksamning við Braga Guðmundsson verktaka um viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina í Garði. Samningurinn var undirritaður af Magnúsi Stefánssyni bæjarstjóra og Braga Guðmundssyni við opnun Fyrirtækjasýningarinnar í Garði sl. föstudag.
Sl. vetur var viðhaft forval og útboð framkvæmdanna, en niðurstaðan varð sú að tilboðum sem bárust var hafnað. Gengið var til viðræðna við Braga Guðmundsson sem báru þann árangur að verksamningur um verkið hefur verið undirritaður.
Viðbygging við Íþróttamiðstöðina verður 493m2 að stærð og mun skapa aðstöðu fyrir líkamsrækt og aðra tengda starfsemi. Framkvæmdir munu hefjast í byrjun febrúar 2014 og ljúka fyrir 1. september 2014. Samningsfjárhæð verksamningsins er 129,6 milljónir króna.
Þann 16. október 2013 verða liðin 20 ár frá því Íþróttamiðstöðin í Garði var formlega tekin í notkun. Sveitarfélagið Garður fagnar þessum áfanga í uppbyggingu þjónustu við íbúa Garðs, segir í tilkynningu frá Sveitarfélaginu Garði.