Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Byggja upp samkeppnishæfni og efla starfsmenn
Miðvikudagur 3. mars 2010 kl. 11:38

Byggja upp samkeppnishæfni og efla starfsmenn

-samstarfsverkefni Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum og Eimskips


Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) hefur á undanförnum vikum unnið að verkefni með Eimskip. Þar hefur Birna Vilborg Jakobsdóttir ráðgjafi atvinnulífs hjá MSS sinnt tímabundnu verkefni á sviði fræðslumála. Verkefnið nær til Eimskips á landsvísu, sem sagt höfuðstöðvanna í Reykjavík og starfstöðva á landsbyggðinni. Um er að ræða mjög stórt verkefni þar sem unnið er með mörgum ólíkum starfshópum innan Eimskips en fyrirtækið er  eitt af stærri fyrirtækjum landsins með um 750 starfsmenn á Íslandi auk mikillar starfsemi erlendis. 

„Verkefnið sem er komið vel á veg felst í því að vinna með stjórnendum og starfsmönnum fyrirtækisins að því að kanna stöðu fræðslumála og þörf starfsmanna fyrir endurmenntun, þjálfun og fræðslu. Unnin hefur verið þarfagreining með ólíkum hópum starfsmanna um allt land og útfrá þeim niðurstöðum verður unnið að stefnu varðandi fræðslumál fyrir næstu misseri,“ segir Birna í samtali við VF.
Gott samstarf hefur verið við símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni sem sinnt hafa ráðgjöf og þarfagreiningu á starfstöðvum Eimskips utan höfuðborgarsvæðisins. Birna tekur það fram að aðaláherslan sé á að móta endurmenntunaráætlun fyrirtækisins í samvinnu við starfsmenn.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Starfsafl, Landsmennt og Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks sem eru fræðslu- og starfsmenntunarsjóðir stéttarfélaga. Sjóðirnir standa að verkefni sem nefnist Fræðslustjóri að láni og er verkefnið með Eimskip eitt slíkra. Verkefnið Ráðgjafi að láni felst í því að sjálfstæður ráðgjafi fer í boði fræðslusjóðanna inn í fyrirtæki í tiltekinn tíma og aðstoðar þau við greiningu á þörfum fyrir fræðslu, lyftir upp þeirri fræðslu sem þegar er í fyrirtækinu og bendir á leiðir til auka fræðslu í framhaldi af greiningunni. Niðurstöður þeirrar vinnu eru síðan grunnur að fræðslustarfi viðkomandi fyrirtækis í lengri eða skemmri tíma. Nokkuð mörg verkefni hafa verið unnin á undanförnum misserum og hafa þau mælst mjög vel fyrir meðal þeirra fyrirtækja og starfsmanna sem tekið hafa þátt.

Elín Hjálmsdóttir, starfsmannastjóri Eimskips hefur lýst yfir mikilli ánægju með verkefnið. Eimskip hefur langa og góða sögu í fræðslumálum og lítur Elín á verkefnið sem upphaf að nýjum landvinningum á sviði starfsmenntamála innan fyrirtækisins. „Fræðslustjóri að láni" er mikilvægt verkfæri til að stuðla að markvissri uppbyggingu mannauðs í fyrirtækinu og tryggja að sú fræðsla sem valin verður, muni koma bæði starfsmönnum og fyrirtækinu að notum og auka samkeppnishæfni þess.

Birna Vilborg segir verkefnið hafa gengið mjög vel og samstarfið við Eimskip hafi verið ánægjulegt. MSS hefur einnig unnið að fleiri svipuðum verkefnum með ýmsum ólíkum fyrirtækjum bæði stórum sem smáum. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér verkefnið Fræðslustjóri að láni eða kanna möguleika fyrirtækja til að taka þátt í slíku verkefni geta haft samband við Birnu V. Jakobsdóttur hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum í síma 421-7500 eða með því að senda tölvupóst til [email protected]

---

Mynd: Samstarfsaðilar verkefnisins frá Eimskip, MSS og starfsmenntasjóðunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024