Byggja sex íbúðir fyrir fatlaða í Reykjanesbæ
Reykjanesbær og Brynja, sem er hússjóður Öryrkjabandalags Íslands, gengu nýverið frá samningi um byggingu sex íbúða húss fyrir fatlaða að Suðurgötu 19 í Reykjanesbæ. Bygging hússins er hafin og gert er ráð fyrir að íbúar flytji í nýjar íbúðir næsta sumar. Öryrkjabandalagið byggir húsið en Reykjanesbær skuldbindur sig til að útvega leigjendur að íbúðunum. Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri Reykjanesbæjar, segir það lítið mál og þörf sé fyrir fleiri íbúðir fyrir fatlaða og öryrkja í Reykjanesbæ.
Þegar málefni fatlaðs fólks fóru frá ríkinu til sveitarfélaga voru gerðar miklar breytingar á lagaumhverfi og reglugerðum sem í raun kalla á að sveitarfélögin vinni miklu betur að málaflokknum en ríkið gerði, m.a. í búsetumálum fatlaðs fólks. Það þykir orðið barn síns tíma að búa á herbergi í sambýlum eins og tíðkast mjög víða en á sínum tíma þótti það mikil framför í stað þess að búa á stofnunum. Víkurfréttir ræddu við Hjördísi Árnadóttur um búsetumál fatlaðra einstaklinga í Reykjanesbæ.
Það er mjög skýrt í lögum að fatlaðir séu í búsetu við sitt hæfi og þurfi ekki að deila öllu með öðrum og það á einnig við fólk sem fær sólarhrings þjónustu. Í Reykjanesbæ eru þrjú búsetuúrræði. Eitt af þeim er alveg í takti við nútímann, en það eru ný raðhús í Seljudal í Dalshverfi í Innri Njarðvík. Þar er boðið upp á sólarhringsþjónustu.
Hin tvö úrræðin í Reykjanesbæ eru herbergjasambýli í Móahverfinu í Njarðvík. Að sögn Hjördísar er annað þeirra mjög ásættanlegt, en það hús er byggt utanum þarfir þeirra einstaklinga sem þar búa og þurfa sérhæfða þjónustu. Þriðja úrræðið er íbúðarhús þar sem skjólstæðingar hafa sín herbergi en deila svo sameiginlega eldhúsi, snyrtingu og stofu. Ríkið á þá eign en við flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaga var ákveðið að Reykjanesbær myndi leigja húsið til ákveðins tíma eða þar til ný búsetuúrræði yrðu til fyrir þá íbúa. Það úrræði er sex íbúða hús við Suðurgötu 19.
Reykjanesbær ákvað að fara einföldustu leiðina og setti sig í samband við Öryrkjabandalag Íslands og fékk það til samstarfs um byggingu. Öryrkjabandalagið notar það fé sem það fær úr Lottóinu til að byggja húsnæði fyrir öryrkja í gegnum Brynju, hússjóð félagsins. Að sögn Hjördísar var félagið mjög jákvætt fyrir því að byggja í Reykjanesbæ.
„Reykjanesbær sóttist eftir því að byggð yrðu tvö átta íbúða hús, enda væri þörf fyrir það í sveitarfélaginu. Öryrkjabandalagið var hins vegar tilbúið til að byggja eitt hús og að það yrði með sex íbúðum. Það gerir bandalagið vegna reynslu sinnar af byggingu svona húsa. Ekki sé ráðlegt að byggja of stórar einingar með einsleitum hópi íbúa,“ sagði Hjördís.
Lögð var á það áhersla að íbúðirnar væru miðsvæðis þannig að stutt væri í alla þjónustu fyrir íbúa hússins og að hún væri í göngufæri. Það varð því úr að nú hefur verið hafist handa við byggingu hússins á lóð Suðurgötu 19. Þaðan er t.a.m. stutt yfir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og í aðra þjónustu sem félagsþjónusta Reykjanesbæjar er með á Suðurgötu 14 og 15-17.
Stefnt er að því að nýja húsið verið tilbúið sumarið 2013 og þá flytji þangað íbúar sem nú eru á sambýli í Móahverfinu í Njarðvík. Eins og staðan er í dag þá eru fimm íbúðir hugsaðar fyrir fatlaða en sjötta íbúðin er hugsuð sem starfsmannaíbúð. Vegna þess hversu miðsvæðis húsið er, þá er nú verið að skoða þann möguleika að sjötta íbúðin verði einnig fyrir fatlaða og starfsmaður búi þá í næsta nágrenni, þannig þó að það þjóni sama tilgangi og tryggi þjónustuna við íbúana ekkert síður. Nýja húsið verður á tveimur hæðum og verða þrjár íbúðir á hvorri hæð. Þá verður lyfta í húsinu til að tryggja gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Upphaflega stóð til að húsið yrði án lyftu og búsetu þannig háttað að á efri hæð væru íbúar sem þyrftu ekki lyftuna. Öryrkjabandalagið ákvað hins vegar að leggja húsinu til lyftuna og kostnaður vegna hennar verður ekki íþyngjandi fyrir verðandi leigjendur í húsinu.
Hjördís segir að stærsti hópurinn sem bíði eftir búsetuúrræðum séu einstaklingar en einnig eru pör í hópnum. Íbúðirnar sem nú eru í byggingu á Suðurgötunni henta mjög vel þeim hópi.
Húsið er byggt samkvæmt forskrift frá Reykjanesbæ en Öryrkjabandalagið fékk upplýsingar frá bæjarfélaginu um það hvað íbúðirnar mættu kosta að hámarki þannig að verðandi íbúar ráði við leiguna þar, því það fólk sem þangað flytur inn hefur enga möguleika á að auka við tekjur sínar. Íbúarnir munu leigja af Öryrkjabandalaginu og fá sínar húsaleigubætur frá Reykjanesbæ.
Í samtali við Víkurfréttir sagðist Hjördís glöð yfir því að þessar íbúðir séu að verða að veruleika og vonast jafnframt til að fljótlega verði hægt að bæta við fleiri íbúðum fyrir þennan hóp fólks. Þörfin sé svo sannarlega til staðar í bæjarfélaginu.