Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Byggja brú yfir í strandað skip og varðskipin bíða átekta
Unnið verður að brúarsmíðinni í nótt á strandstað. VF-myndir: Hilmar Bragi
Laugardagur 3. nóvember 2018 kl. 23:05

Byggja brú yfir í strandað skip og varðskipin bíða átekta

Í nótt verður unnið að því að byggja brú úr landi og yfir í flutningaskipið Fjordvik, sem strandaði við Helguvíkurhöfn síðustu nótt. 
 
Fulltrúar Reykjaneshafnar og Reykjanesbæjar funduðu í kvöld með Landhelgisgæslunni, Umhverfisstofnun, Samgöngustofu og fleiri aðilum þar sem næstu skref í björgunaraðgerðum í Helguvík voru rædd. 
 
Á fundinum var samþykkt aðgerðaráætlun sem útgerð skipsins hefur lagt fram. Samkvæmt henni verður ástand skipsins metið á morgun en til að komast um borð í skipið verður byggð brú eða vinnupallur frá grjótvarnargarðinum þar sem skipið liggur á strandstað og yfir í skipið.
 
Tveir fulltrúar frá björgunarfyrirtæki á vegum útgerðar sementsskipsins komu til landsins í dag og þrír til viðbótar koma á morgun. Þá verður reynt að finna út hvaða aðferðir verða notaðar við björgunina.
 
Tvö varðskip Landhelgisgæslunnar eru nú í Faxaflóa og bíða átekta. Þau eru þegar þetta er skrifað nokkuð frá landi, enda alls ekki gott sjólag nærri höfninni í Helguvík.


Skjáskot af MarineTraffic sem sýnir staðsetningu varðskipanna og flutningaskipið við Helguvík.

Varðskipið Týr á siglingu utan við Helguvík síðdegis.

 
Göngubrú verður byggð yfir þetta grýtta svæði í nótt.
 

Séð yfir Helguvíkurhöfn. Myndin er tekin í sumar sem leið en standstaðurinn er merktur með „X“. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024