Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Byggja 42 herbergja hótel á Garðskaga
Föstudagur 1. apríl 2016 kl. 09:15

Byggja 42 herbergja hótel á Garðskaga

Fyrirtækið GSE ehf. hefur óskað eftir byggingarleyfi fyrir hótel að Norðurljósavegi 2 í Garði. Umsókn um byggingarleyfi var tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd Garðs þann 15. mars sl.  Með umsókninni fylgir einnig bréf umsækjenda með ósk um ívilnanir o.fl. í fjórum liðum. Að fyrirtækinu standa þrír bræður í Garði, einn þeirra er Gísli Heiðarsson, bæjarfulltrúi sveitarfélagsins.

Fyrirhugað er að byggja 42ja herbergja hótel á einni hæð á lóðinni í tveimur áföngum.  Sótt hefur verið um byggingarleyfi til byggingar á fyrsta áfanga sem er 26 herbergi ásamt móttöku, matsal og fylgirýmum, alls u.þ.b. 1.250 m2.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir fyrirhuguð byggingaráform með fjórum atkvæðum. Bjarki Ásgeirsson situr hjá þar sem hann telur að byggingin nái ekki markmiðum skipulagsins um að falla vel að umhverfi sínu og endurspegla aðliggjandi búsetulandslag og náttúrufar. Byggingarfulltrúa falið að undirbúa útgáfu byggingarleyfis.

Þremur liðum í bréfi um ívilnanir var vísað til bæjarráðs Garðs en byggingarfulltrúa var falið að ganga frá útfærslu á einum lið bréfsins í samráði við umsækjanda við útgáfu byggingarleyfis. Hvers eðlis ívilnanirnar eru kemur ekki fram í fundargerð skipulags- og byggingarnefndar.