Byggðasamlag um brunavarnir
– og skoða kosti og galla sameiningar við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins
Talsverð umræða hefur verið um Brunavarnir Suðurnesja [BS] á síðustu vikum. Breytingar standa fyrir dyrum og sveitarfélögin á Suðurnesjum sem standa að BS vinna að stofnun byggðasamlags um rekstur slökkviliðsins. Brunavarnir Suðurnesja glíma við húsnæðisvanda og endurnýjun tækjabúnaðar stendur fyrir dyrum því fyrstu útkallsbílar slökkviliðsins eru komnir á tíma hvað endurnýjun varðar og á það bæði við um fyrsta bíl í Reykjanesbæ og í Sandgerði. Á sama tíma heyrist af viðræðum við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um hugsanlega sameiningu SHS og BS. Víkurfréttir ræddu við Kristján Jóhannsson, formann stjórnar Brunavarna Suðurnesja.
– Hvert er verið að stefna með Brunavarnir Suðurnesja?
„Brunavarnir Suðurnesja eru að verða byggðasamlag. Það er stóra verkefnið en því tengdu erum við að vinna úr skuldavanda vegna þess að reksturinn hefur ekki verið góður og ekki með þeim hætti sem við viljum sjá, þ.e. réttu megin við núllið“.
– Hafa Brunavarnir Suðurnesja ekki verið að stækka og ekki fengið það sem þær þurfa af fjármagni frá eigendum sínum?
„Fyrir utan það að stofna byggðasamlag þá er það stóra verkefni okkar núna að fara í gegnum reksturinn á BS. Er framlag eigenda nægjanlegt, eru menn að fá nægjanlegt út úr Sjúkratryggingum, eru menn að reka þetta á eins hagkvæman máta og hugsast getur? Spurningar og svör nútímans eru þær hvort við séum á réttri leið.
Brunavarnir Suðurnesja hafa breyst mjög mikið á síðustu áratugum. Frá því teknar voru upp vaktir árið 1989 og til dagsins í dag hafa orðið stórkostlegar breytingar á samfélaginu. Samfélagið hefur stækkað, liðið hefur stækkað, búnaður aukist. Það breytir ekki því að þegar við förum inn í nýtt byggðasamlag þá verðum við að vera búin að leysa öll fortíðarvandamál. Við ætlum ekki að byrja í nýju byggðasamlagi með skuldahala. Það er ástæða þess að farið var af stað fyrir áramót að kanna reksturinn og það er strax búið að bregðast við ákveðnum málum þar. Ákveðið hagræðingarferli er komið í gang, sem við erum enn að vinna í og munum gera þar til við höfum náð viðunandi árangri. Það hefur aldrei komið til greina innan stjórnar BS eða meðal eigenda að við séum að fara að skera niður í starfseminni. Þvert á móti er stjórn BS á þeim nótum að auka við vaktir ef við höfum bolmagn til þess“.
– Ofan á rekstrarvanda þá há húsnæðismál starfsemi Brunavarna Suðurnesja.
„Þegar ljóst var að starfsemi BS væri ekki að flytja á Njarðarbrautina og fyrirtækið væri á byrjunarreit, þá var farið í greiningu á húsnæðisvanda og stjórnin er að láta vinna fyrir sig minnisblað um það hvað gert verði í húsnæðismálum til framtíðar. Það er hliðarverkefni sem við erum að vinna í. Núverandi stjórn BS fékk í arf frá fyrri stjórn eins og t.d. stjórnsýsluúttekt frá KPMG og sú vinna er í fullum gangi. Skýrsla er ekki komin en við höfum fengið minnisblöð og rætt við ráðgjafa. Við fengum líka í arf úttekt á mannauðsmálum BS. Þeirri vinnu er lokið og skýrsla er komin og útdráttur úr henni hefur verið sendur til starfsmanna og við munum vinna eftir henni áfram. Sú skýrsla verður ekki gerð opinber. Hún er bara innanhússplagg sem stjórnendur og starfsmenn BS ætla að vinna eftir. Hvað gerist á milli vakta og manna er bara innanhúsmál sem menn ætla að leysa og það er almennt mjög góður andi í slökkviliðinu. Þetta er úrvalslið og eitt af fáum atvinnuliðum á landinu og stendur sig prýðisvel“.
– Hafið þið séð hvar þessi 130 milljóna króna skuld BS liggur?
„Nei. Það er unnið að því að fara í gegnum reksturinn og skoða málin. Það er verkefni KPMG og fleiri aðila um þessar mundir.
– Við skerðingu á þjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þá horfum við upp á aukna sjúkraflutninga til Reykjavíkur. Liggur vandinn þar?
„Við sjáum aukningu í þeim tölum sem slökkviliðsstjórinn hefur tekið saman fyrir stjórnina. Það að ríkið loki einni grein heilbrigðisþjónustu bitnar bara á næstu. Við sjáum þetta í tölunum. Tíðni flutninga sem enda í Reykjavík er að aukast. Það var sögulegt met á síðasta ári í sjúkraflutningum eða 13% aukning frá árinu 2013. Þá eru að aukast þau tilvik að tveir sjúkrabílar eru úti samtímis og jafnvel þrír. Þetta eru verkefni sem við þurfum að leysa.
Nú er fyrst og fremst að búa þannig um hnútana að byggðasamlagið verði stofnað á næstu vikum, vonandi bara fljótlega, og þá þurfum við að vera búin að leysa skuldavandann, við þurfum að leysa vandamál úr fortíðinni og tilheyra lífeyrisskuldbindingum BS því það verður ekki tekið allt inn í hið nýja byggðasamlag. Það þarf að tryggja rekstrarlega afkomu hins nýja byggðasamlags þannig að það geti rekið sig. Við viljum fyrirbyggja að safnað sé upp skuld hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesja, sem er ekkert annað en yfirdráttur. Samhliða þessu er það skylda og ábyrgð stjórnenda að vera alltaf að leita leiða til að hagræða sem mest í rekstri“.
– Hvaðan kemur þá þetta daður ykkar við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins [SHS]?
„Daðrið við höfuðborgarsvæðið kemur út af því að menn geta ekki sagt í tveggja manna tali „þetta er ekkert fyrir mig“. Þú verður að ræða við viðkomandi ef þú ætlar að komast að því að sameining slökkviliðanna sé ekki valmöguleiki. Það gæti alveg farið svo að á endanum þegar við erum búin að ræða við SHS, þessar viðræður eru bara rétt að hefjast og algjörlega á byrjunarreit. Við erum að skiptast á upplýsingum en eiginlegar viðræður eru ekki hafnar. Við erum í óformlegum viðræðum við stjórnendur þar með stjórnendum hér. Það eru engar annarlegar hvatir sem liggja að baki þessum viðræðum. Þegar og ef eitthvað liggur á borðinu sem bitastætt er, og það verður að vera bitastætt fyrir þetta svæði, því við ætlum ekki að fara að gjaldfella þessa þjónustu hér við okkur. Við verðum að ræða þessi mál við SHS á sama hátt og það er verið að kasta fram hér af hverju er ekki búið að ræða við Isavia. Það liggur fyrir frá Isavia að þeir eru með sitt flugvallarkerfi og eru ekki með slökkvilið, heldur björgunar- og viðbragðsþjónustu. Það voru viðræður í gangi 2008 sem skiluðu ekki árangri. Það er ástæðulaust að vera banka þegar þú veist að enginn kemur til dyra.
Við erum tilbúnir að horfa á alla möguleika eins og til dæmis björgunarmiðstöð á Keflavíkurflugvelli. Þegar og ef það boð kemur þá munu Brunavarnir Suðurnesja að sjálfsögðu ekki útiloka aðkomu að því. En með hvaða hætti veit ég ekki. Í dag er nútíminn og við verðum að takast á við það að reyna að finna leið til þess að reka slökkviliðið eins vel og við getum. Vinnan er í fullum gangi,“ segir Kristján Jóhannsson, formaður stjórnar Brunavarna Suðurnesja.