Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Byggðasafnið í Garði: Góð aðsókn í sumar
Fimmtudagur 9. ágúst 2007 kl. 14:32

Byggðasafnið í Garði: Góð aðsókn í sumar

Ásgeir Hjálmarsson, safnstjóri í Byggða- og sjóminjasafni Gerðahrepps, segir að aðsóknin í safnið í sumar hafi verið frábær, jafnvel meiri heldur en síðasta sumar en þá var aðsóknin góð. 
Safnið er opið frá byrjun apríl og til loka október ár hvert, en er þó opnað á veturna við sérstök tækifæri.

Fyrir tveimur árum opnaði veitingastaðurinn Flösin sem er starfræktur samhliða safninu. Upphaflega átti hann einungis að vera lítil kaffitería en hann hefur gengið mun betur en menn bjuggust við. 
Veitingastaðurinn er opinn allt árið, og segja má að hann sé búinn að sprengja utan af sér. Menn ganga með þann draum í maganum að stækka bæði veitingastaðinn og safnið en engin áform eru um það eins og er. 
"Það er nú hægt að stækka söfn endalaust," segir Ásgeir og ljóst að nóg er til af gersemum til að sýna.

Það hefur verið talsvert um tjöld og húsbíla á skaganum í sumar og eru það mikið til íslenskir ferðamenn sem ferðast um þetta svæði að sögn Ásgeirs. Þeir auglýsa safnið mikið og reyna að ná til Íslendinga jafnt og erlendra ferðamenna. "Við erum mjög sátt með aðsóknina og móttökurnar sem við höfum fengið í alla staði síðan við stækkuðum,"  segir Ásgeir.

 

Mynd: Frá byggðasafninu í Garði. VF-mynd: elg

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024