Fréttir

Býður innbrotsþjófi í kaffi
Mánudagur 29. september 2014 kl. 11:11

Býður innbrotsþjófi í kaffi

– Endilega hreint sendu mér skilaboð kæri innbrotsþjófur

Finna Pálmadóttir varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að brotist var inn á heimili hennar og Guðjóns Árna Antoníussonar í Reykjanesbæ á laugardagskvöld. Í innbrotinu var m.a. stolið fartölvu sem innihélt mikla vinnu. Í bréfi sem Finna skrifar á fésbókina gerir hún tilraun til að ná til innbrotsþjófsins og eða annarra góðkunningja lögreglunnar í þeim tilgangi að nálgast gögnin sín af fartölvunni. Þá býður hún innbrotsþjófnum í kaffi. Bréfið sem Finna skrifaði í gærkvöldi er hér að neðan.

Kæri innbrotsþjófur og/eða aðrir góðkunningjar lögreglunnar!

Mig langar að gera félagslega tilraun. Felur hún í sér að leita til vina minna, vina vina minna og vina vina vina minna o.s.frv. á fésbókinni. Ástæðan fyrir þessari tilraun er innbrot sem þú kæri innbrotsþjófur gerðir síðastliðið kvöld (27. sept.) á heimili okkar fjölskyldunnar í Reykjanesbæ. Ég er svo sem ekki búin að kanna það til hlítar, en ég tel að lögreglan sé frekar vanmáttug í slíkum málum og flest þeirra endi sem enn eitt óleysta málið á borði lögreglunnar. Þannig að ég ætla að gera tilraun til þess að leita til ykkar kæru vinir og vinir vina minna og vinir vina vina minna að deila þessum status. Með því skapast sá fræðilegi möguleiki að þú kæri innbrotsþjófur fáir tækifæri á að lesa pistil minn og/eða aðrir góðkunningjar lögreglunnar (sem gætu veitt mér upplýsingar um innbrotið).

Það er mjög óþægileg tilhugsun að vita að þú kæri innbrotsþjófur hafir valsað um heimili okkar, gramsað í eigum okkar og tekið það sem hugurinn girntist. En verst þykir mér þó að þú hafir verið að athafna þig í herbergi í dætra minna, skamm og aftur skamm. Eitt mátt þú kæri innbrotsþjófur eiga að þú varst tiltölulega snyrtilegur í innbroti þínu, þannig að takk fyrir það.

En ástæða þess að mig langar mjög mikið að ná tali að þér er að þú tókst tölvuna mína. Ég græt ekki tölvuna sem slíka heldur alla vinnu mína og gagna sem eru í henni (uu…nei það er langt síðan ég tók afrit af harða diskinum). Í þessu er gríðarlega vinna sem ég lagði í sem þú kæri innbrotsþjófur hrifsaðir af mér og er því glatað nema að þú skilir mér því til baka.

Kæri innbrotsþjófur, þú ert ekkert einn um það að afvegaleiðast, við öll gerum einhver mistök á lífsleiðinni. Ég veit að það býr í þér eitthvað gott og því vil ég gefa þér tækifæri á því að bæta ráð þitt og skila mér tölvunni minni eða að lágmarki leyfa mér að afrita gögnin á henni. Mér þykir líklegt að einskær neyð hafi ýtt þér á þessa braut, það ætlar sér enginn að verða innbrotsþjófur. Hins vegar getur þú borið ábyrgð á þér og þínum athöfnum, þrátt fyrir að þú ætlaðir ekki að velja þér þennan starfsframa. Þú hefur ávallt val, þú valdir að brjótast inn í húsið okkar. Og þú hefur enn þá val, þú getur skilað mér tölvunni minni.

Ef einhver sem þekkir til manna/kvenna sem stunda slíka iðju og/eða bara vonandi þú kæri innbrotsþjófur lest þessi skilboð frá mér til þín, þá væri ég óendanlega þakklát ef þú gæti skilað mér tölvunni til baka. Ég skal bjóða þér í kaffi og með því og ræða við þig (því mér þykir líklegt að þú eigir við dýpri vanda að etja) og jafnvel leiðbeint þér eða hjálpað þér á einhvern hátt. Endilega hreint sendu mér skilaboð kæri innbrotsþjófur og við getum mælt okkur mót.

Ást og friður, Finna og fjölskylda.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024