Búslóð í óskilum við Njarðvíkurhöfn
Einhverjir íbúar Reykjanesbæjar virðast ekki hafa ratað upp í Kölku þegar losa þurfti gamla muni úr búslóð á dögunum. Frekar var brugðið á það ráð að „geyma“ sófasettið og ískápinn við bryggjuna í Njarðvík. Glöggur íbúi Reykjanesbæjar sá óreiðuna og birti þessa mynd á vefsvæði bæjarbúa á Facebook. Ýmsir sem leggja orð í belg við færsluna virðast kenna gjaldtöku í Kölku um þennan slóðaskap en æ algengara virðist vera að íbúar bæjarins kjósi að fara þessa leið til þess að losa sig við rusl í stærri kantinum.