Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Brýnt að aðskilja akreinar á Grindavíkurvegi
Grindavíkurvegur er einn af áhættumestu vegum landsins. VF-mynd/hilmarbragi
Föstudagur 20. janúar 2017 kl. 06:00

Brýnt að aðskilja akreinar á Grindavíkurvegi

- Þrjú banaslys á veginum síðan árið 2002

Banaslysið á Grindavíkurvegi síðastliðinn fimmtudag er það þriðja á veginum síðan árið 2002. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu hafa að auki orðið 18 alvarleg slys á veginum síðan árið 2002. Grindavíkurvegurinn er einn af áhættumestu vegum á landinu miðað við umferðarmagn og slysasögu áranna 2009 til 2014.  Hann er í sjöunda sæti yfir þá vegi sem flest slys verða á, að sögn Ólafs Guðmundssonar, tæknistjóra EuroRAP á Íslandi. Árið 2012 keyrðu að meðaltali 2755 bílar um Grindavíkurveg, framhjá Seltjörn, en árið 2016 var fjöldinn kominn upp í 4232 og er fjölgunin því 53,6 prósent. „Umferð um Grindavíkurveg hefur aukist mjög mikið undanfarin ár. Eðli umferðar og áhætta breytist þegar fjöldi bíla á sólarhring fer yfir fjögur til fimm þúsund líkt og gerst hefur þarna. Þegar fjöldi bíla á vegi er orðinn svona mikill þá aukast mjög mikið líkurnar á að fari ökumaður yfir á rangan vegarhelming þá lendi hann á öðrum bíl. Það er því brýnt að aðgreina gagnstæðar aksturstefnur til dæmis með víravegriði en þannig yrði hægt að koma í veg fyrir framanáakstur,“ segir hann.

Ólafur segir ljóst að rannsaka þurfi Grindavíkurveg og þá sérstaklega þann vegakafla þar sem áreksturinn varð í síðustu viku, rétt norðan við Bláa lónið. „Það hefur verið rætt um að gufa frá virkjuninni geti sest á veginn, þannig myndast hálka og það þyrfti að rannsaka.“ Mjög líklega sé vatn undir hrauninu og mikill raki þaðan sem gufar upp. Við þetta aukast líkur á hálkumyndun til muna.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

EuroRAP er eftirlitskerfi með öryggi vega í Evrópu og eru aðildarfélögin FÍB og systurfélög þess í álfunni. Vegir er skoðaðir á vegum EuroRAP og ástand þeirra metið eftir stöðluðu alþjóðlegu kerfi sem greinir öryggi þeirra.

[email protected]