Brúarsmiðir heiðraðir
Golfklúbbur Suðurnesja heiðraði þá aðila sem áttu stærstan þátt í því að lokið var við byggingu Vilhjálmsbrúarinnar yfir tjörnina á 16. holu á Hólmsvelli i Leiru í sumar. Bauð klúbburinn þessum aðilum í lítið hóf af þessu tilefni til að fagna tímamótunum sem voru 12. ágúst sl. en þá var brúin formlega vígð og tekin í notkun.
Gylfi Kristinsson, framkvæmdastjóri GS og Gunnar Þórarinsson, formaður klúbbsins fóru með hópnum að brúnni og þeim framkvæmdum sem hafa átt sér stað en auk brúarinnar hefur vatnstorfæran verið klædd með eins grjóti sem fengið var frá BM Vallá. Gylfi sagði það framtíðarverkefni að klæða allar vatnstorfærur á Hólmsvelli með svona grjóti. Hann sagði að ágóði af Minningarmóti um Vilhjálm Vilhjálmsson hefði runnið til þessarar framkvæmdar og hugmyndin væri að viðhalda því.
Framkvæmdir hófust fyrir alvöru við brúargerðina sl. haust og fóru fram að mestu leyti í vor og sumar. Þar var einn félagi í GS, Rúnar Valgeirsson, sem dreif verkefnið áfram og fékk reyndar hjálp fleiri undir lokin.
BM Vallá, Nesprýði og Íslenskir aðalverktakar komu mjög myndarlega að verkinu með ómetanlegum stuðningi og voru fulltrúum þessara aðila afhent innrömmum mynd af brúnni og umhverfi hennar við þetta tækifæri.
Golfklúbbur Suðurnesja er fertugur á þessu ári og í næstu viku kemur út afmælisblað af því tilefni og á næsta ári verða fleiri stórverkefni eins og Íslandsmót í höggleik þar sem bestu kylfingar landsins munu etja kappi. Nokkrar breytingar, aðallega lengingar á brautum en einnig til að gera völlinn erfiðari, eru hafnar á Hólmsvelli. Má m.a. sjá nokkra nýja teiga, s.s. á 13. holu sem verður lengsta par 3 hola landsins, tæpir 215 metrar. Auk þess verður byggður teigur upp á klettinum á 18. braut en þar er útsýni yfir allar holur Hólmsvallar.