Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Brotthvarf flugsveitar líkt og Vestmannaeyjagos
Miðvikudagur 11. júní 2003 kl. 10:43

Brotthvarf flugsveitar líkt og Vestmannaeyjagos

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að áhrif þess að Bandaríkin dragi flugherinn frá Íslandi myndu líkjast Vestmannaeyjagosi fyrir bæjarfélagið, en 800 Íslendingar tapa störfum sínum við brotthvarf flughersins. ,,Ef svo illa fer að 800 störf tapist má líkja þessu við Vestmannaeyjagosið, þar sem heilt bæjarfélag er tekið úr sambandi. Við höfum ekki dæmi um neitt fyrirtæki sem hefur þessi áhrif í einu samfélagi. Enginn töfrasproti leysir úr því og ástæða þess að ég nefni gosið er að menn þyrftu þá að hugleiða leiðir eins og Viðlagasjóð," segir Árni. Davíð Oddsson forsætisráðherra svarar bréfi George W. Bush Bandaríkjaforseta í dag, en bandarísk stjórnvöld hafa sýnt vilja til að hagræða í starfsemi herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Komið hefur til tals að flytja flugsveit hersins frá Keflavík og munu viðræður íslenskra og bandarískra stjórnvalda skera úr um það.

Árni segir eðlilegt að Íslendingar taki að sér varnir þjóðarinnar ef ekki nást samningar við aðra. ,,Ég tel mjög mikilvægt að halda uppi vörnum landsins og sinna varnar- og öryggismálum sem sjálfstæð þjóð. Íbúar Reykjaness eru aldir upp við að sinna vörnum og vinna í kringum varnarstarfsemi og hér liggur reynslan. Því er eðlilegt að miðstöð landvarna haldist í Keflavík ef Íslendingar taka að sér varnirnar."

Um 800 Íslendingar starfa á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, auk þess sem 900 eru í verktakavinnu við að þjónusta herinn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024