Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Brottfall úr framhaldsskólum: Engin töfralausn til
Fimmtudagur 15. febrúar 2007 kl. 21:20

Brottfall úr framhaldsskólum: Engin töfralausn til

Í áraraðir hefur umræða um skólagöngu, menntun og námsárangur á Suðurnesjum verið á neikvæðum nótum, enda segir einföld tölfræði að menntunarstig og skólasókn eftir að skyldunámi lýkur er hlutfallslega minni hér en annars staðar.
Mikil bragarbót hefur hins vegar orðið þar á síðustu ár sem sést best í glæsilegri viðbyggingu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem var tekinn í gagnið ekki alls fyrir löngu. Í nýútkomnu vefriti Menntamálaráðuneytisins má hins vegar lesa út úr tölum að brottfall úr framhaldsskólum sé langhæst á Suðurnesjum og er þá miðað við búsetu nemenda en ekki eingöngu þá sem sækja skóla á svæðinu. Þar kemur fram að hlutfall 16 ára nemenda á Suðurnesjum sem hefja nám í framhaldsskóla er 90% en hlutfall 19 ára nema sem enn eru í skóla er einungis um 52%.
Víkurfréttir tóku Ólaf Jón Arnbjörnsson, skólmeistara FS, tali og ræddu um ástæður að baki ástandinu og mögulegar aðgerðir til að stemma stigum við þessu langvinna vandamáli.

Langvinn baráttta
„Þetta eru tölur sem við erum búin að sjá lengi, allt að 30 ár aftur í tímann. Við höfum verið langt á eftir í þessum málum en erum nú að ná með tærnar þar sem önnur svæði hafa hælana,“ segir Ólafur og á þar við bæði brottfall nemenda og hlutfall þeirra sem leita yfir höfuð í nám eftir grunnskóla. Hann bætir því þó við að þær tölur sem settar séu fram gefi ekki rétta mynd af brotfalli því hærra hlutfall 16 ára árgangsins sem mældur er, hóf nám en af þeim sem eru nú 19 ára.
„Við vitum að brottfall er töluvert, en ég vil ekki meina að brottfall nemenda úr FS sé meira en gengur og gerist í sambærilegum skólum, en það má ekki bera saman epli og appelsínur í þessum efnum,“ segir Ólafur og vísar til þess að FS er skilt að taka við öllum nemendum af svæðinu, óháð getu, og er því ekki hægt að bera saman við skóla sem velja inn bestu nemendurna.
„Menntamálayfirvöld hafa alla tíð verið upplýst um stöðu mála og nauðsyn og vilja okkar til að taka á þessu sérstaklega. Við höfum m.a. bent á nauðsyn aukins stuðning við öldungadeildina og önnur úrræði til að mæta þörfum þessa ákveðna hóps sem er í mestri hættu, t.d. með stuttum starfsnámsbrautum. En rýrnunin hjá okkur er meiri en okkur þykir ásættanleg og þá er spurning hvað veldur.“

Ástæður
Þegar leitað er að ástæðu að baki þess að ungt fólk á Suðurnesjum flosnar upp úr námi finnst engin einhlít skýring en Ólafur segir nokkrar samverkandi skýringar liggi að baki. Þar á meðal er sú staðreynd að áhrifamesti þátturinn varðandi námsþátttöku barna og unglinga er menntun og afstaða foreldra. Börn foreldra sem hafa lokið menntun eru líklegri til að ljúka námi en önnur og á Suðurnesjum, þar sem hlutfall fullorðinna sem lokið hafa framhaldsnámi er lægst á landinu, er hægt að búast við því að það leiði til minni námsþátttöku unglinga.
„Önnur staðreynd er sú að árangur barna á Suðurnesjum í samræmdum prófum í 10. bekk er yfirleitt sá lægsti á landinu og þannig hefur það verið síðustu 20-30 ár. Það þýðir að börn koma mörg hver ekki vel undirbúin í framhaldsskóla og minni líkur eru á að þau standi sig vel þar.“
Enn einn þátturinn er að ungt fólk á Suðurnesjum sem hefur einungis grunnskólapróf á yfirleitt auðvelt með að fá vinnu ef þau gerast afhuga frekara námi og þannig hefur það verið í áraraðir. Hvatinn fyrir því að halda áfram í skóla minnkar vegna þess að tækifærin liggja víðar en Ólafur telur hagsmunum þeirra að sjálfsögðu betur borgið með því að sækja sér menntun.
Eftir athugun kemur í ljós að einn afmarkaður hópur nemenda er mun líklegri til að hætta námi.
„Brottfall er mest hjá krökkum sem eru um meðallag í námsárangri eða rétt undir því. Við erum með alla kúrfuna hjá okkur, sérdeildina, stúdentsbrautir, starfsnám og iðngreinar, en erfiðasti hópurinn er sá sem er rétt um eða undir meðallagi. Krakkarnir þar komast ekki inn á stúdentsbrautir eða iðnnámsbrautir og eru því á almenni braut þar sem brottfallið er mest. Það er sáralítið brottfall í sérdeild eða í fornámi þar sem er haldið mjög vel utan um hópinn, en þegar komið er upp úr því eru þar nemendur sem eru ekki það slakir að þeir kalli á sérstök úrræði en ekki það góðir að þeir standi einir.“

Úrræði
Til að auka námsþátttöku unglinga hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða af hálfu allra aðila sem að koma.
Í fyrsta lagi má nefna afar öfluga öldungadeild sem er starfrækt í FS auk hins mikla starfs sem unnið er í fræðslu fullorðinna í Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum. Bæði þessi verkefni miða að því að styrkja baklandið, þ.e. að foreldrar sæki sér menntun til að vera bæði stuðningur og hvatning til barnanna.
Fjölbrautaskólinn hlaut nýlega leiðréttingu á fjárframlögum frá ríkinu sem hefur það í för með sér að skólinn getur stóraukið þjónustu við nemendur.
„Við gátum bætt við okkur starfsfólki og fórum strax út í að efla stjórnkerfi skólans, umsjón með nemendum og ráðgjöf til þeirra. Þannig aukum við þjónustuna og vonum að það skili sér,“ segir Ólafur.
Fyrir nokkru var umsjónarkerfið yfir fornáminu eflt til muna og hefur það skilað sér í minna brottfalli þaðan. Nú fyrir ári var vinna hafin við að undirbúa aukna umsjón með öðrum nemum með því að hafa færri nemendur á hvern umsjónarkennara og meiri samskipti við foreldra.
Meðal annarra nýjunga í skólastarfinu síðustu árin hafa verið t.d. að bjóða upp á styttri starfsnámsbrautir líkt og flugþjónstubraut og eru stjórnendur að skoða fleiri hluti í þeim efnum.

Á þessu vandamáli er engin töfralausn, en frekar má ræða um samspil milli heimilanna, grunnskóla og framhaldsskóla þar sem allir geta enn gert betur. „Við þurfum öll að hjálpast að. Það skiptir mestu máli,“ segir Ólafur að lokum og bendir á að hingað til hafi ekki skort á skilning frá sveitarfélögunum á svæðinu í þessum málum.
„Það eina sem við hjá FS getum gert er einfaldlega að líta í okkar eigin barm og einsetja okkur að verða betri. Það er á okkar stefnuskrá að verða  besti framhaldsskóli á landinu og þannig munum við geta þjónað öllum okkar nemendum.“

Texti: Þorgils Jónsson/Myndir: Ellert Grétarsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024