Brian Tracy gefur frumkvöðlum á Reykjanesi hljóðbók
Fyrirlesarinn góðkunni, Brian Tracy ákvað í kjölfar fyrirlesturs síns á Ásbrú í vor að gefa frumkvöðlum á Reykjanesi hljóðbók um stofnun og rekstur fyrirtækja.
Vildi Tracy með þessu leggja sitt af mörkum til þess að fjölga sprotafyrirtækjum á Suðurnesjum en hann telur hér mikil tækifæri fyrir hendi og viljinn allt sem þarf til. Í fyrirlestrinu á Ásbrú vildi hann sjá sem flesta koma sínum eigin rekstri á laggirnar og sagði það enga hindrun að fólk væri þegar í vinnu enda byrjuðu mörg fyrirtæki sem hliðargrein við hlið annarrar vinnu.
Í námskeiðinu fer hann yfir helstu hliðar stofnunar og reksturs á litlum fyrirtækjum allt frá því að móta hugmynd að litlu fyrirtæki allt til þess að ráða nýja starfsmenn til fyrirtækisins. Heilræði Tracys eru einföld, skorinort og kemst hann ávallt fljótt að kjarna málsins.
Hljóðbókin skiptist í tólf kafla en þeir eru:
1. Lykilatriði til að árangri í rekstri nýrra fyrirtækja
2. Að velja rétta vöru eða þjónstu
3. Áætlanagerð
4. Markaðssetning og sala
5. Að sigra hjörtu viðskiptavinanna
6. Sölumennska í sérflokki
7. Sölunni lokað
8. Samningatækni
9. Fjármögnun
10. Starfsmannastjórnun
11. Auktu framleiðni þína
12. Bættu jafnvægið milli vinnu og einkalífs
Námskeiðið má nálgast á heimasíðu Ásbrúar (www.asbru.is) undir Nýsköpun en beinn tengill á námskeiðið má nálgast hér fyrir neðan.
Fyrir þá sem ákveða að taka áskorunina og hefja eigin rekstur þá býður Heklan, Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja upp á ráðgjöf í stofnun og rekstri fyrirtækja og býður ungum fyrirtækjum upp á aðstöðu í hinu glæsilega frumkvöðlasetri Eldey sem er staðsett á Ásbrú.