Breyttir tímar
Miðvikudagurinn 15. mars 2006 verður lengi í minnum hafður sem dagurinn sem allt breyttist. Í einu vetfangi var einni stærstu stoðinni svipt undan atvinnulífi á Suðurnesjum og allir aðilar neyddir til að hugsa framtíðina upp á nýtt. Um 600 starfsmenn Varnarliðsins munu missa lífsviðurværi sitt fyrir lok september, þar af um 430 Suðurnesjamenn og –konur. Auk þess mun brotthvarfið hafa mikil áhrif á hina 250 sem starfa hjá öðrum aðilum á Varnarstöðinni svo sem verktökum.
Yfirvofandi aðgerðir
Það er ekki ofsögum sagt að styr hafi staðið um Varnarliðið undanfarin ár og þá sérstaklega frá nóvember 2003 þegar rúmlega 100 manns var sagt upp vegna niðurskurðar á fjárframlögum. Síðan þá má segja að stór hluti starfsliðs hafi lifað í óvissu um framtíð sína. Einnig hafa tekjur ríkisins af hernum minnkað umtalsvert, eða úr 11,9 milljörðum árið 2003 niður í 8,2 milljarða á síðasta ári. Enn afdráttalausari samdráttur hefur verið ef horft er til tekna af Varnarliðinu sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Þar hefur hlutfallið lækkað úr 2,5% árið 1990 niður í 0,8% á síðasta ári samkvæmt tölum Seðlabankans.
Þá hefur íslenskum starfsmönnum á varnarstöðinni fækkað úr 1.620 árið 1997 niður í þá 8-900 sem eru í dag hjá Varnarliðinu og öðrum vinnuveitendum og hermönnum fækkað úr tæplega 5000 í 1200, eða rúm 60% frá lokum kalda stríðsins.
Nokkrir starfsmenn sem Víkurfréttir ræddi við sögðu að margir hefðu undanfarin misseri horft með kvíða til hverra mánaðarmóta af ótta við uppsagnir. Fregnirnar af því að Bandaríkjastjórn hafi ákveðið að draga orrustuþotur og björgunarþyrlur sínar komu engu að síður flatt uppá Íslendinga. Skipti þá engu hvort um hafði verið að ræða almenning eða ráðamenn sem stóðu í þeirri trú að enn ætti eftir að fá niðurstöðu úr viðræðum við bandarísk stjórnvöld.
Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, sagði í samtali við Víkurfréttir þennan afdrifaríka dag að áfallið væri mikið fyrir samfélagið suður með sjó. „Okkur stéttarfélagsmönnum fannst þetta vera eins og andlátsfregn langveiks ættingja sem er hvíldinni feginn, en maður mun samt hugsa til hans með söknuði. Við höfum verið að bíða eftir skýrum svörum í mörg ár og nú má segja að við höfum fengið svarið svo um munar.“
Blendnar tilfinngar
Eftir áralanga óvissu er nokkur léttir fyrir hlutaðeigandi aðila að nú sé þrátt fyrir allt búið að taka af öll tvímæli um það sem koma skal. Engu að síður hefur verið erfitt að fá starfsmenn til að tjá skoðanir sínar undir nafni þar sem ekki er enn búið að semja um starfslok.
Víkurfréttir hittu fyrir fjóra starfsmenn sem eru í góðum tengslum við starfsfélaga sína. Sögðu þau að ákveðnum hópum starfsfólks hafi verið tilkynnt á mánudag, fimm dögum eftir að tilkynnt var um brotthvarfið, að enn væri óráðið hvort til uppsagna kæmi. Yfirmenn þeirra sögðu fréttaflutning af uppsögnum vera gróusögur. „Þeir sögðu við okkur, orðrétt: „Don’t believe the rumours.“ Það finnst okkur virðingarleysi við okkur því auðvitað er vitað hvernig fer, en þeir virðast leggja meiri áherslu á að halda okkur góðum svo við göngum ekki út eða gerum eitthvað af okkur. Við höfum sýnt vinnuveitendum okkar mikla tryggð í áraraðir og munum halda áfram að sinna okkar störfum vel eins og alla tíð. Við viljum fá að yfirgefa vinnustaðinn okkar með reisn.“
Starfsmönnum þótti einnig verulega að sér vegið þegar Tollgæslan herti eftirlit við aðalhlið varnarstöðvarinnar og leitaði hátt og lágt í bílum þeirra sem fóru af vellinum. „Við hefðum átt að fá áfallahjálp, en þess í stað var komið fram við okkur eins og glæpamenn.“
Erfiðara fyrir ákveðna hópa
Ljóst þykir að ákveðinn hópur fólks mun eiga erfiðara með að fá atvinnu eftir að þeir ljúka störfum. Í því samhengi má geta þess að alls eru 77 starfsmenn Varnarliðsins á aldrinum 60-69 ára, en leiða má líkum að því að sá hópur geti átt í mestum erfiðleikum með að halsa sér völl á nýjum vettvangi. Í viðbragðsáætlunum allra hópa sem komið hafa að málinu er lögð mikil áhersla á að hagsmuna þeirra sem komnir eru á ákveðinn aldur. Árni Sigfússon, bæjarstjori Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Víkurfréttir að starfsfólk um og yfir 60 ára væru þeim ofarlega í huga. „Starfsmenn á þeim aldri eiga að fá aðstoð við að ná starfslokasamningum og við hjá Reykjanesbæ ætlum að leggja okkar af mörkum. Við áætlum einnig að skipuleggja atvinnumiðlun í samstarfi við fagfyrirtæki ef þörf verður á og fylgja þeim eftir í atvinnuviðtöl og annað.“
Heimildarmenn Víkurfrétta, sem eru á miðjum aldri, eru uggandi yfir stöðu sinni. „Það er alls ekki hlaupið að því að fá starf við hæfi,“ segir kona á fimmtugsaldri. „Ég er einstæð móðir og á erfitt með að sækja vinnu inn í Reykjavík og eins er ekki hlaupið að því fyrir mig að vinna vaktavinnu fjölskyldunnar vegna. Svo er líka þessi gengdarlausa æskudýrkun í gangi hjá fyrirtækjum í dag þar sem reynsla og hæfni eru ekki metin jafn hátt og prófgráða.“
Önnur kona, á fertugsaldri, segir að þrátt fyrir tal um gott atvinnuástand á Suðurnesjum sjái hún ekki marga möguleika og vil sjá aðgerðir sem allra fyrst. „Það þurfa að koma fleiri hugmyndir en álver í Helguvík. Svarið er heldur ekki að færa stofnanir og fyrirtæki hingað úr bænum því að ef fólkið flytur ekki með fyrirtækjunum missa þau vinnuna og það er ekki lausn að flytja atvinnuleysi á milli landshluta.“
Að sögn heimildarmanna Víkurfrétta vilja starfsmenn umfram allt að yfirstjórn hersins sýni þeim þá virðingu að leyfa þeim að hætta með reisn. „Við viljum að gerðir séu við okkur starfslokasamningar svo við getum skilið sátt við. Uppsagnirnar munu vætanlega taka gildi í lok september og þá er mögulegt að við fáum hærri atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði, en eftir það erum við í lausu lofti. Til að bregðast við því er brýnt að ríkið komi til móts við okkur með aðgerðum.“ Þar vilja starfsmenn sjá sértækar atvinnuleysisbætur sem þeir segja að sé það besta sem stjórnvöld geti gert til að hjálpa þeim yfir erfiðasta hjallann.
Viðbrögð ríkis og sveitarfélaga
Um leið og fréttirnar af yfirvofandi uppsögnum bárust hófu stjórnir sveitarfélaganna á Suðurnesjum aðgerðir. Þeir boðuðu forsætisráðherra og utanríkisráðherra á sinn fund og kynntu þeim tillögur sínar í þremur þáttum.
Í fyrsta lagi var það tillagan um aðgerðir fyrir elstu starfsmennina, þá var sérstök framkvæmdaáætlun um nútímavæðingu varna á Keflavíkurflugvelli. Þar er meðal annars lagt til að starfsemi Landhelgisgæslunar flytji að hluta eða í heild til Suðurnesja. Eins er lagt til að Alþjóðadeild lögreglu verði flutt til Keflavíkurflugvallar sem og höfðustöðvar Ratsjárstofnunar, þar verði opnuð miðstöð friðargæslu, Útlendingastofnun flutt til Keflavíkurflugvallar og þar komið upp miðstöð varna gegn sýklavopnum, efnavopnum og stórfaröldrum.
Að síðustu var farið yfir þau tækifæri sem bjóðast vegna þeirra kosta sem Suðurnes búa yfir. Meðal annars væri hægt að koma upp hraðflutningamiðstöð á Keflavíkurflugvelli og svo eru uppi hugmyndir um að nýta flugskýli Varnarliðsins til að breyta farþegavélum í farmvélar og öfugt, en til þess þarf þessa aðstöðu sem einungis er til staðar á Keflavíkurflugvelli.
Ákveðið var að mynda sjö manna samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaganna og leggja sveitarstjórnamenn mikið upp úr því að árangur sjáist af starfinu ekki síðar en um mánaðarmót. Þá er talið að fyrstu uppsagnarbréfin fari að berast starfsmönnum.
Á stjórnarfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem haldinn var á mánudagsmorgun ítrekaði stjórnin í ályktun sinni að brýnt væri að bregðast skjótt við vegna atvinnuástandsins.
Jón Gunnarsson, formaður stjórnar SSS, alþingismaður og forseti bæjarstjórnar í Vogum, sagði í samtali við Víkurfréttir að forgangsatriði sé að fá á hreint hverjir af starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli haldi stöðum sínum. „Þar á ég við starfsmenn Slökkviliðsins og brautarstarfsmenn. Svo þurfum við að fylgja því eftir að Landhelgisgæslan verði flutt til Keflavíkur og síðast en ekki síst þarf að ýta á úrlausnir í yfirtöku á landsvæði og húsnæði á varnarstöðinni. Við þurfum að vita hver umsvif Bandaríkjamanna verða því það kemur ekki til greina að húsin standi tóm þar til herinn ákveður að koma til baka. Það er það versta sem getur gerst.“
Þorsteinn Erlingsson, formaður Atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Víkurfréttir að hugur sveitastjórnarmanna væri hjá því fólki sem mun missa vinnuna og að þeir muni reyna allt til að hjálpa þeim. Hins vegar yrði Reykjanesbær einnig fyrir miklum búsifjum. „Þetta er mikið tjón fyrir okkur, en það kemur sér vel að við í Reykjanesbæ erum búin að vinna ötullega í atvinnumálum síðustu ár. Við brugðumst hratt við og kölluðum ríkisstjórnina að borðinu, en nú taka hins vegar við mánuðir og ár sem við þurfum að berjast við að fylgja þessum málum eftir gagnvart ríkinu. Til þess þarf sterka forystu og ég treysti engum betur til þess heldur en Árna Sigfússyni.“
Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja og oddviti A-listans í Reykjanesbæ, sagði í samtali við Víkurfréttir að ástandið sé vissulega skelfilegt en lausnin felist í samtakamætti Suðurnesjamanna. „Nú þurfum við að spýta í lófana, en ég þekki kraftinn sem býr í fólkinu í kringum mig og ég er viss um að við munum finna svör við spurningum dagsins innan tíðar.“
Ríkisstjórn og ráðherrar hafa haft í mörg horn að líta undanfarna viku þar sem þeir hafa rætt við sveitarstjórnir og stéttarfélög. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra sagði á fundi sem Framsóknarflokkurinn í Reykjanesbæ hélt í Stapa að þrjár meginstoðir kæmu í stað varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þær væru Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf, Landhelgisgælan, sem myndi eflast mikið við þessar nýju aðstæður þar sem flugflotinn yrði stóraukinn, og Sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli. Sýslumannsembættin á svæðinu yrðu hugsanlega sameinuð og starfsemi þeirra efld.
Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd nokkuð fyrir að hafa ekki séð þessa atburðarás fyrir. Á Alþingi hefur verið deilt á ráðherra fyrir meint sinnuleysi, en Jón Gunnarsson benti á að stjórnarandstaðan á þingi hafi lengi talað fyrir fyrirbyggjandi aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Stjórnarliðar hafi hins vegar ekki hlustað þar sem þeir hafi verið sannfærðir um að samningar tækjust um nær óbreytta starfsemi, þó með auknum tilkostnaði íslenska ríkisins.
Tækifæri eftir áfallið
Nú horfa allra augu til framtíðar og síðustu viku hafa ótal hugmyndir komið fram um framtíðarlausnir í atvinnumálum Suðurnesja. Þar má nefna allt frá álveri, innanlandsflugi og eflingu alþjóðaflugvallar til heilsutengdrar ferðaþjónustu og miðstöðvar fyrir alþjóðlegar pakkaþjónustumiðstöðvar. Þá minntist Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík, á möguleikana sem felast í byggingu hótels við Bláa lónið, vinsælasta ferðamannastað landsins.
Ljóst þykir að álversdraumarnir hafa fengið byr undir báða vængi. Nú er svo komið að forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Alfreð Þorsteinsson, hefur gengið fram fyrir skjöldu og boðist til að bæta upp orkuþörf fyrir álver í Helguvík. Þá hafa forsvarsmenn Norðuráls, sem hyggjast reisa álverið, lýst sig reiðubúna til að hefja framkvæmdir strax á næsta ári.
Svarið felst hins vegar ekki í þessum eina þætti því álframleiðsla mun ekki hefjast fyrr en eftir nokkur ár. Allir aðilar á Suðurnesjum hafa lýst sig tilbúna til að vinna saman að bættu atvinnuástandi í farmtíðinni og það er lykilatriði í málinu.
Nú er ekki tími fyrir argaþras og hreppapólitík heldur fyrir samvinnu að sameiginlegu marki. Fara verður gaumgæfilega yfir allar hugmyndir og meta þær með það fyrir augum að skapa atvinnu bæði til skamms tíma og langframa litið.
Enginn skal gera lítið úr því áfalli sem starfsfólk á varnarstöðinni horfir nú til. Hins vegar er, þar sem skaðinn er skeður, engin ástæða til annars en að líta á stöðuna í dag sem tækifæri til að renna nýjum stoðum undir blómlegt mannlíf á Suðurnesjum.
Þorgils Jónsson [email protected]