Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Breytingarnar hjá Strætó unnar út frá ábendingum og beiðnum
Akstur Strætó frá Flugstöðinni var nýjung fyrir Suðurnesjamenn. Nú hefur leiðakerfinu verið breytt og það bætt eftir ábendingar frá farþegum og fleirum.
Laugardagur 31. janúar 2015 kl. 13:12

Breytingarnar hjá Strætó unnar út frá ábendingum og beiðnum

Strætó hóf akstur frá Suðurnesjum 4. janúar. Veruleg óánægja var með leiðakefið og við því hefur Strætó brugðist með breytingum sem taka gildi 1. febrúar:

-Afar mikilvægt að farþegar sendi inn ábendingar til Strætó, segir Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (S.S.S.)
 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Verulegar breytingar verða á akstri Strætó á Suðurnesjum frá og með 1. febrúar en akstur á vegum Strætó hófst 1. jan. sl. Eru breytingarnar unnar út frá ábendingum og beiðnum frá farþegum og sveitarfélögum. „Unnið hefur verið að úrbótum í leiðakerfinu. Það er því afar mikilvægt að farþegar sendi inn ábendingar til Strætó, því þá er hægt að bæta og aðlaga kerfið,“ segir Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum við VF.



Hún segir að meðal breytinga megi nefna að vagninn frá Tjarnarhverfi í Innri-Njarðvík fer fyrr af stað upp í flugstöð (FLE) á virkum dögum, svo hann sé kominn fyrir vaktaskipti í  flugstöðinni. „Biðstöðvum í fyrstu ferð á morgnana hefur verið bætt inn í leiðarkerfið. Þær eru Hringbraut/Melteigur, Hringbraut/Norðurtún, Hringbraut/Knattspyrnuvegur auk þeirra stoppistöðva sem áður var auglýst. Ferðin sem fer 7:42 frá FLE mun aka alla leið í Umferðarmiðstöð í stað þess að stoppa í Firði. Vagnarnir stoppa líka lengur í Miðstöð svo bílstjórar hafi rýmri tíma en áður til að taka við fargjöldum.

Ábendingar höfðu komið frá nemendum í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hefur verið brugðist við þeim. Fyrsta ferð á morgnanna ekur fram hjá Fjölbrautaskólanum sem og 2 síðdegisferðir fara til baka út í Garð og Sandgerði. Morgunferðin verður því að leggja af stað tveimur mínútum fyrr úr Garði og Sandgerði svo að vagninn nái að verða kominn inn að Miðstöð þegar leið 55 ekur af stað á höfuðborgarsvæðið.

Ferðum hefur verið bætt við á fimmtudögum og föstudögum til að koma til móts við þarfir nemenda úr Grindavík. Morgunferðin úr Grindavík stoppar auk þess við lögreglustöðina í Grindavík samkvæmt beiðni nemenda. Ferðin sem fór 9:23 frá Umferðamiðstöðinni hefur verið færð til og fer nú frá Umferðamiðstöðinni kl. 7:55. Með því móti var komið á til móts við nemendur Keilis en vagninn verður þá fyrir utan Keili kl. 9:00 á morgnana.“

Nú er byrjað að keyra frá flugstöðinni. Hvernig hefur það komið út?

„Eftir að þáverandi innanríkisráðherra ákvað að rifta hluta samnings við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (S.S.S.) sem fól í sér að S.S.S. hefði einkaleyfi á akstri frá flugstöðinni varð að hugsa kerfið upp á nýtt. Samgöngukerfið hafði fengið tekjur af þeirri leið og gaf tækifæri á því að halda uppi þjónustustiginu. Frá og með síðasta hausti hafa engar tekjur komið inn vegna þessa einkaleyfis og því var það nauðsynlegt fyrir stjórn S.S.S. að koma með lausn. Að öðrum kosti værum við að horfa upp á ferðatíðni sem gagnast myndi afar fáum. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum skrifaði undir samning við Vegagerðina árið 2008 en þá hafði Vegagerðin nýlokið við útboð. Kynnisferðir áttu hagstæðasta boðið og fengu samninginn. Samkvæmt lögum þarf að bjóða út svona stór verk að loknum samningstíma og var það gert á síðasta ári. SBK átti hagstæðasta boðið í akstur á leið 55 og 89 en Hópferðir Sævars áttu hagstæðasta tilboðið á leið 88. Við höfum ekki fengið uppgjör frá akstursaðilum en því verður skilað inn um næstu mánaðarmót. Við erum ekki að tjalda til einnar nætur en samningurinn okkar við Vegagerðina gildir til ársloka 2019. Akstur til og frá FLE með strætó er því valkostur sem bætist við aðra samgönguvalkosti á þessari leið og vonumst við til þess að festa okkur vel í sessi á samningstímanum.

“

Hvað með fjölgun stoppistöðva í Reykjanesbæ?

„Stoppistöðvum hefur verið fjölgað í Reykjanesbæ í morgunferðunum. Reykjanesbær rekur innanbæjarkerfi og hefur verið leitað til þeirra um að samþætta tímatöflur þess kerfis betur við það kerfi sem við erum með núna á milli byggðakjarna og höfuðborgarsvæðisins. Leiðakerfi almenningsvagna eru í stöðugri þróun og því er mikilvægt að notendur þess sendi allar ábendingar um það sem betur má fara hvort sem um er að ræða leiðarkerfi, tímatöflur, akstursvagna eða framkomu bílstjóra. Að sjálfsögðu má líka hafa samband við þjónustuver Strætó b.s. til að hrósa,“ sagði Berglind að lokum.