Breytingar verða að leiða til lækkunar á kostnaði
Samfylkingin í Suðurkjördæmi hélt kjördæmaþing laugardaginn 28. nóvember 2009 í Eldborg í Svartsengi. Í framsögum sínum fóru þeir Björgvin G. Sigurðsson fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis og Gunnar Svavarsson formaður Sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar yfir stöðuna með tilliti til komandi sveitarstjórnarkosninga. Líflegar og gagnlegar umræður urðu í kjölfarið um stöðu mála í kjördæminu.
Kjördæmisþingið samþykkti eftirfarandi ályktun:
“Þar sem að ljóst er að möguleiki er á frekari samdrætti á framlagi rikisins til Heilbrigðisstofnana Suðurnesja og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands vill kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi undirstrika að sjúkrahúsin hafa þegar dregið úr kostnaði miðað við fjárlög 2009, HSS um 5.2% og HSU um 5,6%. Muni slík krafa verða til þess að draga þarf umtalsvert úr þjónustu og öruggt er að leggja verði niður allar bráðafæðingar á Suðurnesjum og Suðurlandi með auknum kostnaði ásamt óöryggi og óþægindum fyrir notendur þjónustunnar.
En hugmyndirnar ganga út frá að fæðingardeild Landspítalans eigi að taka við fæðandi konum af Suðurnesjum og Suðurlandi. Eins og áður segir liggja fyrir hugmyndir um að leggja niður, í sparnaðarskyni að sagt er, bakvaktir við fæðingardeildir og skurðstofur á Heilbrigðisstofnununum á Suðurnesjum og Suðurlandi. Þetta skal gert án þess að baki liggi reiknislegar forsendur sem styðji tillögurnar.
Kjördæmisráð Samfylkingarinnar á Suðurlandi telur að það verði að liggja fyrir að þessi breyting leiði til lækkunar á kostnaði, að öðrum kosti verði ekki farið í þessar breytingar, sem eru þrátt fyrir allt ef af verður, afturför frá því öryggi sem nú er á Suðurnesjum og á Suðurlandi.”