Breytingar í flugstöð vegna breiðþotna
Stærri vélar hafa bæst í flota Icelandair og WOW air að undanförnu og er því verið að gera breytingar á farangursflokkunarkerfi í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Frá þessu er sagt á vefnum Turisti.is. Icelandair tók í vor í notkun Boeing 767 breiðþotur með sætum fyrir 262 farþega og WOW Air mun á næstu dögum taka í notkun enn stærri Airbus 330 þotur.
Vegna þessa er verið að stækka farangurssal flugstöðvarinnar og hefur því hægt á afköstum og þessa vikuna eru farþegar beðnir um að mæta í flugstöðina þremur tímum fyrir brottför.
Á vef Isavia kemur fram að nýja kerfið hafi rúmlega tvöfalda flokkunargetu á við það gamla og nauðsynleg viðbót við núverandi kerfi. Í nýjum sal er auk þess mun betri vinnuaðstaða fyrir starfsfólk og nú verður unnt að þjónusta farangursgáma sem notaðir eru í breiðþotur. Framkvæmdir við nýjan sal hófust í nóvember á síðasta ári, stuttu eftir að flugfélögin höfðu tilkynnt um þá ákvörðun að taka breiðþoturnar í notkun. Nýbyggingin sem hýsir salinn er 3.000 fermetrar að stærð en þar af er nýi salurinn 2.100 fermetrar.