Breytingar í almenningssamgöngum í RNB
- Ný tímatafla tekur gildi 2. janúar.
„Við á umhverfis- og skipulagssviði höfum fengið nokkrar ábendingar um það sem betur má fara í kerfinu og reynum eftir fremsta megni að verða við slíkum ábendingum. Gæta þarf þess þó að kerfið festi sig í sessi og íbúar og aðrir notendur geti treyst því að tímatöflur og akstursleiðir standi,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar. Um næstu áramót verða gerðar nokkrar breytingar á almenningssamgöngukerfi Reykjanesbæjar.
Notkun á samgöngukerfi hefur aukist
Við breytinguna sem varð um áramótin 2012/13, þegar hafinn var akstur á 30 mínútna fresti á öllum leiðum, hafi notkunin aukist jafnt og þétt og séu nú tæplega 2000 farþegar að nýta almenningssamgöngukerfið á virkum dögum auk þess sem notkun á laugardögum hafi einnig aukist. Guðlaugur segir að pöntunarþjónustu fyrir íbúa í Höfnum hafi einnig verið vel tekið ef mið sé tekið af notkun.
Ný tímatafla tekur gildi 2. janúar
„Til að mæta kröfu um hagræðingu í almenningssamgöngukerfinu hefur umhverfis- og skipulagssvið lagt til tvær breytingar nú um áramótin og mun ný tímatafla, sem tekur gildi þann 2. janúar 2015, gera ráð fyrir að kvöldakstri verði hætt eftir kl. 21 á kvöldin og að pöntunarþjónusta fyrir íbúa Hafna verði á klukkutíma fresti en ekki hálftíma fresti eins og nú er,“ segir Guðlaugur en bætir við að ekki sé þó einungis um skerðingu að ræða því akstur muni hefjast um Iðavelli seinnipart dags á virkum dögum og því vilji til að mæta kröfum þess hóps sem óskað hefur eftir því.
Reykjanesbær - Reykjavík
Þá mun Strætó BS hefja akstur milli Reykjanesbæjar og Reykjavíkur um áramótin og með því tengist þessi tvö kerfi þ.e. almennissamgöngukerfi Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðisins, en Strætó BS mun meðal annars stoppa á skiptistöð við Krossmóa. „Einnig hefur verðið óskað eftir að leið R3 - Ásbrú fari um um þjónustukjarna við Fitjar en eftir skoðun teljum við ekki forsvaranlegt af öryggisástæðum að fara með strætó inn á Reykjanesbraut við Hafnarafleggjara til að mæta þeim óskum.“
Guðlaugur segir að til standi að undirbúa útboð á almenningssamgöngukerfinu og fer sú vinna í gang strax á næsta ári. „Því er mjög gott, ef íbúar hafa tillögur um hvernig bæta megi kerfið, að senda okkur á [email protected]. Þar verða þær skoðaðar og reynt að mæta þeim ef kostur er á.“