Breytingar gerðar á MÍT í Reykjanesbæ
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum þann 13. júlí sl. breytingar á skipuriti Menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs sem koma í kjölfar breytinga sem gerðar voru á ráðum sviðsins að loknum bæjarstjórnarkosningum.
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði hefur nú verið skipt upp í tvö ráð: menningarráð og íþrótta- og tómstundaráð.
Þær breytingar sem verða á skipuriti MÍT sviðs í framhaldi eru að menningarfulltrúi Valgerður Guðmundsdóttir verður starfsmaður menningarráðs auk þess sem málefni safna og menningarhúsa þ.m.t. 88 hússins og Fjörheima falla þar undir. Starfsmaður íþrótta- og tómstundaráðs verður íþrótta- og tómstundafulltrúi, Ragnar Örn Pétursson, sem áður gegndi stöðu æskulýðs- og forvarnarfulltrúa en undir þann málaflokk heyra m.a. íþróttamannvirki, vinnuskóli og tómstundir aldraðra.
Gert er ráð fyrir að forvarnarmál verði í höndum verkefnastjóra sem mun starfa með öllum sviðum, sérstaklega manngildissviði, þ.e. Fjölskyldu- og félagsþjónustu, Fræðslusviði og Menningar -,íþrótta og tómstundasviði ásamt þeim fjölmörgu hópum og stofnunum í bæjarfélaginu sem koma að forvarnarmálum.
Framkvæmdastjóri MÍT sviðs er áfram Stefán Bjarkason.
Vefur Reykjanesbæjar greinir frá þessu.