Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Breytingar á gjaldskrá Voga
Miðvikudagur 6. september 2006 kl. 16:13

Breytingar á gjaldskrá Voga

Á fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga í gær voru samþykktar breytingar á gjaldskrá sveitarfélagsins og segir í bókun að breytingarnar séu til þess gerðar að renna styrkari stoðum undir fjölskylduvænt samfélag í sveitarfélaginu.

Fellt var niður gjald nemenda í hádegismat Stóru-Vogaskóla en sú breyting tók gildi 22. ágúst 2006. Þá var einnig fellt niður gjald fyrir 18 ára og yngri í sunlaugina og heimilt verður að veita niðurgreiðslu vegna barna sem eru á biðlista á leikskóla frá 9 mánaða aldri í stað 12 mánaða áður. Síðastnefnda breytingin tekur gildi við birtingu gjaldskrár.

Í breytingunum felast umtalsverðar lækkanir á útgjöldum fjölskyldufólks í sveitarfélaginu og vonar bæjarstjórn að þessar breytingar skapi fjölskyldum fjárhagslegt svigrúm til að gefa börnunum tækifæri til að sækja meira í íþrótta- og tómstundastarf. Auk þess standa vonir til þess að niðurfelling gjalds fyrir börn í
sundlaugina leiði til þess að foreldrar og börn fari saman í sund.

„Þetta hefur ekki meiri kostnaðarauka í för með sér á hvern íbúa í sveitarfélaginu en því sem nemur blandi í poka fyrir barn einu sinni í viku allt árið,“ sagði Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Vogum. „Af þessum aðgerðum hlýst samt kostnaðarauki sem ekki var gert ráð fyrir en við finnum honum stað í endurskoðun fjárhagsáætlunar. Við erum að uppfylla kosningaloforð þess lista sem myndar núna meirihluta í sveitarfélaginu,“ sagði Róbert.

„Útgjaldahækkunin er um 3,5 milljónir á þessu fjárhagsári og á ársgrundvelli gerir það um 7-8 milljónir. Hækkun á hvern íbúa er því um 7000 kr. sem er ekki stórkostlegt þegar litið er til þess að öll grunnskólabörn í sveitarfélaginu fá ókeypis mat í skólanum og ókeypis í sund,“ sagði Róbert að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024