Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Breyta flugskýli og byggja flugvélaþvottastöð
Poseidon P-8 kafbátaleitarvél og þota Icelandair á Keflavíkurflugvelli. VF-mynd: Hilmar Bragi
Mánudagur 25. mars 2019 kl. 20:57

Breyta flugskýli og byggja flugvélaþvottastöð

Útboðum vegna fyrirhugaðra framkvæmda á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli er lokið og er búist við að þær hefjist á næstunni. Um er að ræða fyrstu framkvæmdir á vegum bandarískra stjórnvalda á Íslandi síðan varnarliðið hætti starfsemi haustið 2006. Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins.
 
Undir lok síðasta árs voru undirritaðir verksamningar milli bandaríska sjóhersins og bandaríska verktakans Rizzani DE Eccher um tvenns konar framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Annars vegar er um að ræða viðhald og breytingar á flugskýli 831 á Keflavíkurflugvelli, hins vegar byggingu þvottastöðvar fyrir flugvélar við flugskýli 831. Framkvæmdunum er ætlað að bæta aðstöðuna fyrir kafbátaeftirlitsflugvélar Atlantshafsbandalagsþjóðanna. Þá hefur verið undirritaður verksamningur milli bandaríska sjóhersins og ÍAV um viðhald og endurbætur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Heildarfjárhæð verksamninganna þriggja er 25.250.000 Bandaríkjadalir eða rétt tæpir þrír milljarðar króna. Bandaríska varnarmálaráðuneytið stendur straum af kostnaði við framkvæmdirnar.  
 
Helstu verkþættir sem snúa að viðhaldi og breytingum á flugskýli 831 eru breytingar á hurðarbúnaði, eldvarnarkerfum og styrking á gólfi þannig að hægt verði að taka inn í skýlið nýjar tegundir kafbátaeftirlitsflugvéla Atlantshafsbandalagsþjóðanna, P-8 Poseidon. Í tengslum við þvottastöðina þarf að setja upp frárennsliskerfi og hreinsunarbúnað. Samanlagt tilboð Rizzani DE Eccher í þessi tvö verkefni hljóðar upp á 13.750.000 Bandaríkjadali, um 1,6 milljarða króna. Viðhaldsverkefni ÍAV á öryggissvæðinu taka til endurbóta á flugvélastæðum, akstursbrautum flugvéla og ljósakerfum fyrir flugvélastæði og akstursbrautir flugvéla. Áætlaður kostnaður er 11.500.000 Bandaríkjadalir, jafnvirði tæpra 1,4 milljarða króna. 
 
Verkefnin voru auglýst á Íslandi og í Bandaríkjunum í fyrra. Um er að ræða fyrstu framkvæmdir á vegum bandarískra stjórnvalda á Íslandi í að minnsta kosti 12 ár eða síðan varnarliðið hvarf af landi brott haustið 2006. Búist er við að framkvæmdir hefjist á næstunni og taki um tvö ár. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024