Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Brennisteinsfjöll fái frið
Fimmtudagur 6. maí 2010 kl. 11:12

Brennisteinsfjöll fái frið


Í undirbúningi Grindavíkurbæjar um eldfjallagarð á Reykjanesi er lagt til að Brennisteinsfjöll verði friðuð fyrir jarðhitanýtingu. Öll orkufyrirtækin höfðu fyrir nokkrum árum sótt um rannsóknarleyfi í fjöllunum en HS Orka (sem þá hét Hitaveita Suðurnesja) dró sína umsókn til baka. 

Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík, segir í undirbúningsvinnunni vegna eldfjallagarðsins hafi menn álitið að orkumagn í Brennisteinsfjöllum væri ekki það mikið að það borgaði sig að raska svæðinu. Menn hafi því frekar viljað beina jarðhitanýtingu á önnur svæði en friða Brennisteinsfjöllin þar sem finna má ósnortin víðerni á nágrenni við mesta þéttbýlissvæði landsins.
Ólafur segir  undirbúningsvinnu vegna eldfjallagarðins halda áfam á næstunni. Hugmyndin að eldfjallagarðinum hafi orðið til við vinnu auðlindastefnu sem nýlega var samþykkt í bæjarstjórn Grindavíkur. „Auðlindastefnan snýst um það hvernig við ætlum að umgangast allar auðlindir innan sveitarfélagins, ekki eingöngu orkuauðlindirnar. Með henni er stefnan mörkuð og reynt að finna jafnvægi á milli nýtingar- og friðunaráforma,“ segir Ólafur. Eftir því sem næst verður komist er Grindavík fyrsta sveitarfélagið á landinu sem markar sér sérstaka stefnu í þessum málaflokki.

Fyrir nokkrum árum höfðu orkufyrirtækin sótt um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Hitaveita Suðurnesja dró sína umsókn til baka. Þegar Össur Skarphéðinsson varð iðnaðarráðherra í síðustu ríkisstjórn setti hann hinar umsóknirnar í salt þar sem hann taldi ekki tilhlýðilegt að ráðast inn á óraskað svæði. Talið var að ekki væri eftir svo miklu að slægjast í orkuöflun á svæðinu. Í Brennisteinsfjöllum er að finna ósnortin víðerni þar sem ummerki eftir athafnir mannsins eru hvergi sjáanleg. Þar eru miklar, ósnortnar jarðminjar eftir eldsumbrot fyrri alda sem gætu haft mikið aðdráttarafl í eldfjallagarði en jarðfræðitengd ferðaþjónusta (Geotourism) ryður sér mjög til rúms. Fleiri sveitarfélög á suðvestur- og suðurlandi eru nú að vinna hugmyndir að slíkum eldfjallagörðum sem taldir eru geta orðið góð viðbót við ört vaxandi ferðaþjónustu í landinu.
---

Ljósmynd/elg – Brennisteinsfjöll eru í landi Grindavíkur. Þar engir vegir, háspennulínur eða önnur mannvirki heldur ósnortin víðerni og öræfakyrrð í nágrenni við mesta þéttbýlissvæði landsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024