Breiðbrautarreitur á Ásbrú glæddur nýju lífi
246 íbúðir í fjölbreyttri og skjólgóðri byggð
Vinnslutillaga að deiliskipulagi fyrir Breiðbrautarreit á Ásbrú liggur nú fyrir og markar mikilvægt skref í þróun svæðisins. Tillagan, sem unnin er af Stúdíó Jæja fyrir hönd Kadeco, tekur til reits sem afmarkast af Lindar-, Grænás- og Breiðbraut og miðar að því að skapa fjölbreytta og vistvæna byggð í nánum tengslum við sérkenni svæðisins.
Í tillögunni kemur fram að lögð sé sérstök áhersla á að skapa græna, gönguvæna og skjólsæla byggð sem taki mið af þeirri áhugaverðu sögu sem Ásbrú hefur. Þar sem áður voru byggingar sem þjónuðu hersetu, er nú unnið með metnaðarfulla sýn á fjölbreytta íbúðabyggð sem fellur vel að staðbundnum aðstæðum. Nýbyggingar munu skapa skjól fyrir ríkjandi norðan- og austanátt, en opnast til suðurs og vesturs – sem tryggir björt útsýni og betri nýtingu á sól og útivistarsvæðum.
Skapar nýja ásýnd með tengingu við rætur svæðisins
Samkvæmt hugmyndafræði tillögunnar er byggðamynstrið fjölbreytt og mótað með skýrum sjónásum á milli ólíkra svæða innan reitsins. Þetta á að stuðla að upplifun af rýmum í manneskjulegum kvarða og bjóða upp á marga möguleika til samveru, leiks og útivistar í sameiginlegum svæðum.
Helstu tölur og stærðir:
Fjöldi íbúða: 246
Fjöldi bílastæða: 290
Byggingarmagn: 26.386 m2
Við hönnunina er einnig tekið mið af eldri byggingum sem þegar standa á Ásbrú og víða má finna húsagerðir sem henta vel í samspil við nýja byggð. Umhverfið er þó á köflum berangurslegt og því er markmiðið að þétta og móta það á mannvænan hátt. Nýtt byggðamynstur mun byggja upp skjólgóðar og aðlaðandi götur, torg og opnar tengingar milli svæða þar sem gangandi og hjólandi eiga greiða leið.
Þróun í takt við rammaskipulag
og staðaranda
Í lýsingu verkefnisins kemur fram að vinnan sé unnin í anda þeirra markmiða sem sett voru fram í rammaskipulagi fyrir Ásbrú. Þar er áhersla lögð á að tryggja vistvæna byggð með grænum tengingum, fjölbreytilegri húsagerð og opnum útirýmum sem styrkja mannlíf og samfélag.
Reiturinn verður þéttur, en án þess að missa sveigjanleika í útfærslum. Þeir staðir þar sem götur, stígar og hús koma saman eru mótaðir með tilliti til ríkjandi vindátta, birtu og landhalla – og eru nýbyggingar aðlagaðar með því að opnast eða hliðrast í takt við núverandi aðstæður. Þannig nýtist reiturinn sem heild og býður upp á fjölmargar rýmisupplifanir, þar sem áhersla er lögð á sjónræna samfellu og samhengi milli nýs og gamals.
Kynningu á vinnslutillögunni er nú lokið og hefur Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar veitt heimild fyrir því að vinna megi fullgilda deiliskipulagstillögu í samráði við skipulagsfulltrúa bæjarins. Þar með hefst næsta skref í hönnunar- og samráðsferlinu, þar sem tillagan verður þróuð frekar með áherslu á framkvæmdahæfni, ásýnd og samspil við nærliggjandi byggð.