Breiða út mormónatrú á Suðurnesjum
„Fólk tekur okkur bara vel en íbúar Suðurnesja eru ekki mjög trúaðir, samt mjög kurteisir," segir Öldungur Christensen trúboði frá Utah í Bandaríkjunum en hann hefur ásamt félaga sínum, Öldungi Richardson verið við trúboð hér á landi síðasta árið. Þeir koma úr Mormónakirkjunni í Bandaríkjunum og eru hér á landi á vegum íslensku Mormónakirkjunnar, Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu.
Þeir félagar tala ágæta íslensku en þeir voru í trúboðsskóla í Utah áður en þeir komu hingað til lands þar sem þeir lærðu meðal annars íslensku. „Þegar við komum hingað lásuum við orðabækur og lærðum málið með því að tala við fólk," segja þeir en trú Mormóna er stór hluti af lífi þeirra og mjög mikilvæg.
Öldungur Christensen og Öldungur Richardson hafa búið og starfað í Keflavík síðustu 6 mánuði. Þeim hefur líkað vel á Suðurnesjum en þeir segja að á síðasta ári hafi þeir fundið 5 einstaklinga sem gengu til liðs við kirkjuna. Í Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu hér á Íslandi eru um 300 meðlimir.
Trúboð Mormóna er mikilvægur hluti af þeirra uppeldi. Þegar þeir voru 19 ára gamlir þá ákváðu þeir að fara í trúboð í samtals tvö ár. „Þegar við komum heim þá förum við í háskóla, giftumst og tökumst á við lífið," segja þeir brosandi en þeir fara báðir heim á þessu ári. „Okkur líkar vel við Íslendinga og við munum án efa koma aftur í framtíðinni með fjölskyldur okkar."
Myndin: Öldungur Christensen og Öldungur Richardson eru trúboðar á vegum Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu og þeir búa í Keflavík.