Bregðast við þegar formlegt erindi berst
VSFS og Nesfiskur ósammála um meint verkfallsbrot
Fyrirtækið Nesfiskur, sem gerir út Sigurfara GK og Sigga Bjarna GK, var sektað um rúma hálfa milljón króna á þriðjudagkvöld vegna verkfallsbrota. Þá hafði verið farið á bátunum tveimur á sjó og talið að aðrir hafi gengið í störf sjómanna sem voru í verkfalli. Magnús Magnússon, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis, tók á móti bátunum við komuna til Sandgerðishafnar á þriðjudagskvöld og afhenti fulltrúa útgerðarinnar kröfu vegna verkfallsbrotsins. Á fimmtudag sendu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að Nesfiskur hafi ekki framið verkfallsbrot. Í tilkynningunni segir að samtökin hafni því að brotið hafi verið gegn verkfallsrétti, enginn í áhöfn skipanna tveggja sé í Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis og að enginn í áhöfn hafi gengið í störf einstaklinga sem séu í verkfalli.
Ekki hefur verið brugðist við fréttatilkynningunni af hálfu Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis. „Okkur hefur ekki borist formlegt erindi þar sem kærunni er hafnað. Við bregðumst við því þegar það berst en ekki við tillkynningu til fjölmiðla,“ segir Magnús Magnússon, formaður VSFS, í viðtali við Víkurfréttir. Komist VSFS og Nesfiskur ekki að samkomulagi um málið mun Kjaradómur kveða upp um niðurstöðu þess.