Brautin: Samgönguyfirvöld og Vegagerðin gagnrýnd harðlega
Þingmenn allra flokka í samgöngunefnd Alþingis gagnrýna samgönguyfirvöld og Vegagerðina vegna aðstæðna á Reykjanesbraut. Fréttastofa Ruv hefur eftir Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, formanni nefndarinnar, að slysið sem varð á brautinni í morgun hafi verið kornið sem fyllti mælinn.
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum, tekir í sama streng í samtali við RUV og segir að Vegagerðin hefði átt að bregðast fyrr og betur við og bæta merkingar. Bæjarstjórn Voga sendi einmitt frá sér harðorða ályktun fyrir um mánuði síðan vegna ástandsins á Brautinni. Fátt hefur gerst síðan nema hvað fleiri alvarleg slys hafa orðið á veginum, nú síðast í morgun þar sem fjórir slösuðust alvarlega.
RUV hefur eftir Steinunni Valdísi að nú sé nóg komið. Menn verði að horfast í augu við að þetta gangi ekki lengur og að bráðabirgðaaðgerða sé þörf strax. Í svipaðan streng taka aðrir þingmenn í samgöngunefnd.
VF-mynd/Hilmar Bragi: Frá vettvangi slyssins í morgun. Nú er nóg komið og grípa þarf strax til aðgerða, segja þingmenn.