Braust inn í tvo bíla og klessti þá
Töluverður erill var hjá Lögreglunni í Keflavík í gær. Klukkan 05:44 var tilkynnt um umferðaróhapp á Austurvegi í Grindavík. Þar hafði bifreið verið ekið út af veginum þar sem hún hafnaði á ljósastaur. Lögreglan í Keflavík fór á staðinn en þá var ökumaðurinn farinn af vettfangi. Lögregla handtók skömmu síðar 19 ára dreng í Þórkötlustaðahverfi en hann passaði við lýsinguna á ökumanninum. Hann er grunaður um ölvun við akstur. Við athugun kom í ljós að bifreiðinni hafði verið stolið úr Grindavík en bifreiðin var ólæst og með lyklunum í. Bifreiðin var töluvert skemmd eftir óhappið en hún var fjarlægð af vettfangi með dráttarbifreið.
Klukkan 09:13 barst tilkynning til lögreglu um innbrot í veitingahús í Grindavík. Starfsmenn höfðu komið að innbrotsaðilanum á staðnum. Maðurinn var handtekinn og hann færður í fangageymslur. Einhver eignaspjölln urðu á staðnum eftir innbrotsaðilann.
Lögreglan fékk tilkynningu klukkan 10:16 í gær að farið hafi verið inn í nokkrar bifreiðir utan við íbúðarhús í Þórkötlustaðarhverfi í Grindavík. Skemmdir urðu á einni bifreiðinni en við nánari athugun kom í ljós að henni hafi verið ekið stuttan spöl þar sem henni hafði verið ekið utan í aðra bifreið á staðnum. Sá sem var handtekinn í Þórkötlustaðahverfi er einnig grunaður um þetta verk.
Á dagvakt hjá lögreglunni voru síðan tveir ökumenn kærðir fyrir hraðakstur á Reykjanesbraut.
Í nótt voru tveir ökumenn kærðir fyrir hraðakstur, einn fyrir stöðvunarskyldubrot og einn fyrir að vera með litaðar filmur í fremstu hliðarrúðum bifreiðar sinnar. Annars var nóttin með rólegra móti hjá lögreglunni í Keflavík.