Brást illa við handtöku
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í fyrrinótt ökumann sem grunaður var um að aka undir áhrifum fíkniefna. Hann brást illa við afskiptunum og þurfti að færa hann í handjárnum á lögreglustöð, þar sem hann hélt mótþróanum áfram. Sýnatökur þar staðfestu að hann hafði neytt kannabis.
Annar ökumaður, sviptur ökuréttindum, var stöðvaður og sáu lögreglumenn þá að hann bar merki fíkniefnaneyslu. Hann var færður á lögreglustöð, þar sem sýnatökur staðfestu neyslu hans á kannabis og amfetamíni.
Þriðji ökumaðurinn, sem einnig ók réttindalaus, var færður á lögreglustöð vegna gruns um fíkniefnaakstur. Hann játaði kannabisneyslu, sem sýnatökur staðfestu.