Brann til kaldra kola í gamla bænum
Bifreið brann til kaldra kola í gamla bænum í Keflavík í kvöld. Þegar slökkviliðið kom á vettvang stóð bifreiðin í björtu báli.
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað á Vallargötu í Keflavík í kvöld þar sem eldur hafði komið upp í fólksbifreið. Eldurinn magnaðist hratt og stóð bifreiðin alelda þegar slökkviliðið kom á vettvang.
Reykjarbólstur frá bálinu sást víða að enda veður bæði stillt og kalt í Keflavík í kvöld.
Slökkviliðsmenn voru snöggir að ráða niðurlögum eldsins en bifreiðin er gjörónýt.
Myndir af slökkvistarfi tók Hilmar Bragi í kvöld.