Brælukaflar og röskun á flugi hefur áhrif á útgerðina
Frá því síðasti pistill var skrifaður, sem fjallaði að nokkru um góða byrjun í apríl, sérstaklega gagnvart veðrinu, þá hefur eiginlega allt farið á versta veg og þvílíkir brælukarflar hafa verið að ganga yfir Suðurnesin undanfarna dag. Flug hefur raskast og það hefur líka áhrif á útgerðina því bátar hafa lítið komist á sjóinn.
Veiðin hjá bátunum var búin að vera mjög góð áður enn þessir stormar gengu yfir og ef við lítum á dragnótabátana þá er Siggi Bjarna GK kominn með 122 tonn í löndunum. Sigurfari GK með 116 tonn í níu, Benni Sæm GK 98 tonn í níu og Aðalbjörg RE með 57 tonn í sex róðrum.
Netabátarnir voru líka að fiska vel. Erling KE kominn með 142 tonn í níu róðrum. Grímsnes GK með 70 tonn í ellefu róðrum. Maron GK 52 tonn í ellefu, Halldór Afi GK með 27 tonn í níu og Hraunsvík GK með 13,6 tonn í fimm en allir þessir voru að landa í Sandgerði. Þorsteinn ÞH var með 65 tonn í níu löndunum en hann landar í Njarðvík.
Núna eru fyrstu minni bátarnir sem hafa verið að róa hérna sunnanlands farnir út á land. Sá fyrsti sem fór var líka báturinn sem var fyrstur til þess að koma suður um haustið 2018. Þá hét báturinn Hulda GK en var seldur fyrr í vetur og heitir núna Hafrafell SU. Hafrafell SU fór í burtu um 9. apríl og var um 27 klukkutíma að sigla á miðin skammt undan Siglufirði og landaði þar reyndar ekki miklum afla, aðeins 3,3 tonnum. Þaðan hefur báturinn verið að róa undanfarna daga. Þetta er eins langt í burtu innanlands og hægt er að komast frá Sandgerði, þar sem að báturinn var að róa. Vegalengdin er 670 km miðað við norðurleiðina. Hafrafell SU er ekki eini báturinn sem er farinn því Sandfell SU, sem kom hingað suður í stuttan tíma, fór aðeins á eftir Hafrafelli SU og var með sömu rútínu. Fyrst á Siglufjörð og þaðan á Þórshöfn og kom þangað með 12,8 tonn í einni löndun.
Vésteinn GK, Guðbjörg GK og Auður Vésteins SU eru líka komnin norður og eru að landa á Skagaströnd. Veiðin hjá þeim hefur reyndar verið mjög lítil. Ekki nema 4,8 tonn í tveimur róðrum hjá Auði Vésteins SU.
Í Síðasta pistli þá minntist ég á að grásleppuvertíðin er hafin hérna á Suðurnesjunum og veiðin hjá bátunum er búinn að vera nokkuð góð. Í Grindavík þá er Tryllir GK með 6,1 tonn í sex og þar af 5,3 tonn af grásleppu.
Í Sandgerði er Addi Afi GK með 9,3 tonn í sjö róðrum og þar af sex tonn af grásleppu. Guðrún Petrína GK nep 8,4 tonn í fimm róðrum og þar af 6,1 tonn af grásleppu. Tjúlla GK 7,9 tonn í fjórum veiðiferðum og þar af 5,9 tonn af grásleppu. Bergvík GK 11,8 tonn í fimm og þar af 7,1 tonn af grásleppu.
Lítum aðeins á frystitogarana. Baldvin Njálsson GK kom til Hafnarfjarðar með 630 tonn í einni löndun og þar af var karfi um 350 tonn og þorskur um 100 tonn. Gnúpur GK kom með 352 til Grindavíkur og þar af var þorskur 171 tonn og karfi 99 tonn.
„Það er dálítið kaldhæðnislegt að ekki komi einn loðnusporður á land á Suðurnesjum, þrátt fyrir að loðnan sé stutt frá ströndinni, alveg frá Þorlákshöfn og inn í Faxaflóa. En hvar haldið þið að loðna hafi verið brætt í fyrsta skipti á Íslandi og hvaða bátur var þar að verki?“
Í venjulegu árferði og þegar að fiskvinnsla og útgerð var mun meiri á Suðurnesjum heldur en er í dag þá ætti loðnuvertíðin að hafa verið að klárast eða mjög lítið eftir af henni. En nei. Árferði er í fyrsta lagi mjög skrýtið því enginn loðnukvóti var gefinn út á þessari vertíð og er þetta í fyrsta skipti síðan árið 1982 og 1983 sem að enginn loðnuveiði er. Árið 1982 var sett loðnuveiðibann og var bannað að veiða loðnu allt árið 1983 fram til loka nóvember það ár þegar veiðar voru leyfðar að nýju.
Okkur Suðurnesjamönnum er örugglega alveg sama hvort kvóti sé gefinn út á loðnu eða ekki því að í dag er ekki ein einasta loðnuverksmiðja eftir á Suðurnesjunum. Síldarvinnslan hefur ákveðið að loka fiskimjölsverksmiðju sinni í Helguvík. Það er dálítið kaldhæðnislegt að ekki komi einn loðnusporður á land á Suðurnesjum, þrátt fyrir að loðnan sé stutt frá ströndinni, alveg frá Þorlákshöfn og inn í Faxaflóa. En hvar haldið þið að loðna hafi verið brætt í fyrsta skipti á Íslandi og hvaða bátur var þar að verki? Ég leyfi ykkur að velta þessu fyrir ykkur í páskafríinu. Ég ætla að éta páskaegg og óska lesendum þessa pistla og lesendum Víkurfrétta gleðilegra páska.
Gísli Reynisson
[email protected]