Bræddi úr bílnum á 200 km. hraða
Eftirför lögreglu á Reykjanesbraut í gær endaði með því að bifreið ökuníðingsins bræddi úr sér á Reykjanesbraut við Voga. Ökumaðurinn var handtekinn fyrir ofsaaksturinn og vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Bifreiðinni var veitt eftirför á tveimur vélhjólum lögreglunnar. Eftirförin hófst í Hafnarfirði en hjólunum var ekið á rétt innan við 200 km. hraða og dró í sundur með hjólunum og bifreiðinni sem veitt var eftirför.
Þegar komið var að gatnamótunum við Voga gafst bifreiðin hins vegar upp á ofsaakstrinum, olía lak af vélinni og bifreiðin bræddi úr sér. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað til að hreinsa upp olíuna.
Ekki er vitað hvað manninum gekk til með ofsaakstri sínum en maðurinn er lögreglunni ekki ókunnur.