Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bráðaþjónusta fylgi þróun samfélagsins
Þriðjudagur 19. desember 2006 kl. 22:05

Bráðaþjónusta fylgi þróun samfélagsins

Fimm sjúkrabílar frá Brunavörnum Suðurnesja voru við störf á sama tíma í morgun þar sem mikið annríki var vegna strandsins út af Hvalsnesi. Á sama tíma varð vinnuslys á Flugstöðvarsvæðinu og veikindatilfelli sem flutt var frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á Sjúkrahús Reykjavíkur.

Þessi samtímaútköll urðu þess valdandi að nota þurfti báða nýju sjúkrabílana sem slökkviliðsmenn BS hafa unnið við að standsetja og eiga að koma í stað þeirra sem eldri eru.

Sjötti sjúkrabíllinn á svæðinu sem er staðsettur er í Grindavík var settur í viðbragðsstöðu fyrir allt útkallssvæðið. Sigmundur Eyþórsson slökkviliðsstjóri BS sagði í samtali við Víkurfréttir að einungis væru skilgreindir fjórir sjúkrabílar á öllu Suðurnesjasvæðinu, sem væri of lítið. „Það þarfa að minnsta kosti tvo sjúkrabíla til viðbótar til að anna þörfinni á svæðinu. Síðasta áratuginn hefur daglegt umfang í sjúkraflutningum aukist svo um munar en fjöldi sjúkrabíla og mannhalds staðið í stað,“ sagði Sigmundur.

Áður voru þrír sjúkrabílar á sjúkrahúsi Keflavíkurflugvallar sem hægt var að kalla til í mannfrekum bráðatilfellum. Tíðni samtímaútkalla hjá BS hefur aukist svo munar og daglega þörfin sömuleiðis.

„Ég tel að rekja megi þessa auknu þörf til aukinna umsvifa og stækkandi samfélags, brýn þörf er á að bráðaþjónusta fylgi þróun samfélagsins,“ sagði Sigmundur að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024